Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mesta hækkun á fasteignamarkaði í þrjú ár

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mikil virkni hefur verið á fasteignamarkaði í sumar. Mesta hækkun íbúðaverðs í þrjú ár mældist á höfuðborgarsvæðinu og hrein útlán viðskiptabankanna hafa stóraukist á undanförnum mánuðum.

„Við sjáum það að íbúðir hækka um 1,2 prósent á milli mánaða núna í júlí á höfuðborgarsvæðinu sem er bara mesta hækkun sem við höfum séð á milli mánaða síðan í maí 2017,“ segir Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans.

Hagvísar benda til þess að fasteignamarkaðurinn sé á fleygiferð. Nýjar tölur Seðlabankans sýna 45 milljarða króna aukningu íbúðalána í júlí. Nær öll aukningin er í óverðtryggðum lánum og raunar drógust verðtryggð lán saman enda eru vextir í sögulegu lágmarki og margir hafa notað tækifærið til íbúðakaupa eða endurfjármögnunar.

Samantekt Íbúðalánasjóðs vísar í sömu átt. Hlutfall fyrstu kaupenda hefur aldrei verið hærra, íbúðir eru skemur á sölu og leiga hækkar. Óvíst er hvort þetta heldur áfram og segir Una að ekki séu merki um bólumyndun á markaði. Óvissan í efnahagslífinu er mikil og búist við að atvinnuleysi aukist þegar líður á haustið. „Það kannski verður frekar til þess að það hægi eitthvað á þessum hækkunum, að það verði ekki til lengri tíma,“ segir Una.

Magnús Geir Eyjólfsson