Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kannast ekki við uppákomu á lögreglustöðinni

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
„Þetta er fullkomlega rangt. Það var engin uppákoma,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, um fréttir þess efnis að vísa ætti honum með valdi af lögreglustöðinni.

Tilkynnt var í vikunni að Ólafur Helgi yrði færður til í starfi. Mun hann taka við starfi sérfræðings í málefnum landamæra innan veggja dómsmálaráðuneytisins. Mikil ólga hefur verið innan embættisins undanfarin misseri og ásakanir um einelti og niðurrif gengið á víxl.

DV greinir frá því að Ólafur Helgi hafi freistað þess í dag að fá aðgang að gögnum er varða mannauðsmál embættisins. Þegar því hafi verið hafnað hafi hann freistað þess að opna skjalaskáp með aðstoð lásasmiðs. Fullyrt er að vísa eigi Ólafi Helga með valdi af stöðinni og að ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins sé væntanlegur til Reykjanesbæjar ásamt Grími Hergeirssyni, sem skipaður hefur verið tímabundið sem eftirmaður Ólafs Helga.

Ólafur Helgi hafnar þessum fréttum með öllu en staðfestir þó að hann muni fara í sumarleyfi frá og með næstkomandi mánudegi. Hann hefji svo störf í dómsmálaráðuneytinu um mánaðamótin. Kvaðst hann enn vera við vinnu þegar fréttastofa náði tali af honum og kannaðist ekki við neitt uppnám, líkt og lýst er í frétt DV. Ekki náðist í Grím Hergeirsson.