Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Írskur ráðherra segir af sér - sat 80 manna kvöldverð

21.08.2020 - 12:21
Mynd með færslu
Írska þingið í Dublin.  Mynd: Pikist
Landbúnaðarráðherra Írlands, Dara Calleary, hefur sagt af sér eftir að hafa tekið þátt í rúmlega áttatíu manna kvöldverði á miðvikudag. Daginn áður tóku hertar reglur gildi á Írlandi til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Landbúnaðarráðherrann sat á miðvikudagskvöld hátíðarkvöldverð á hóteli í Clifden í vesturhluta landins þar sem 82 gestir voru í tveimur sölum. Daginn áður voru reglur hertar til muna á Írlandi og aðeins mega sex manns koma saman innandyra. Aðrar reglur gilda um veitingastaði og verslanir.

Ráðherrann varði þessar hertu aðgerðir í útvarpsviðtali í þættinum The Pat Kenny show á útvarpsstöðinni NewsTalk nokkrum klukkutímum áður en hann mætti í kvöldverðinn. „Við erum í miðjum faraldri og þess vegna verðum við að fækka þeim sem mega koma saman í heimahúsum, af því að það hafa verið partý og hópsmit sem rekja má þangað,“ sagði ráðherrann í viðtalinu í fyrradag. 

Í færslu á Twitter baðst Calleary afsökunar. Hann sagðist hafa boðað komu sína í kvöldverðinn fyrir nokkrum vikum síðan til að láta í ljós virðingu sína við ákveðna manneskju sem hann hafi miklar mætur á. Í ljósi hertra samkomureglna hafi hann ekki átt að mæta og biðst á því afsökunar. Þá sagði ráðherrann fráfarandi að stjórnvöld hafi krafist mikils af almenningi til að hefta útbreiðslu faraldursins og því að hann samráðherrana fyrrverandi afsökunar. 

 

Forsætisráðherra Írlands, Micheál Martin, segir að ráðherrann hafi sýnt dómgreindarleysi. Fólk um allt landið hafi fært miklar fórnir bæði í einkalífi og vinnu til að hamla útbreiðslunni. Írska lögreglan rannsakar hvort sóttvarnarreglur hafi verið brotnar í kvöldverðinum. 

Greindum smitum á Írlandi hefur fjölgað mikið að undanförnu. Þau eru nú 26 á hverja hundrað þúsund íbúa en voru fjögur fyrir hálfum mánuði.

Carreary hafði aðeins verið í embætti í landbúnaðarráðherra í rúman mánuð. Sá sem sinnti embættinu á undan honum, Barry Cowden, hafði einnig aðeins setið í því nokkrar vikur. Hann sagði af sér eftir að hafa ekið ölvaður. 

Fréttin hefur verið uppfærð. Birt var röng mynd með fréttinni áður. Beðist er velvirðingar á því.