Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hefur áhyggjur af áhrifum hlaupsins á bleikju í Hvítá

21.08.2020 - 12:50
Dauður lax sem fannst við Hvítá í Borgarfirði eftir hlaup úr lóni við Langjökul 2020
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Sérfræðingur Hafrannsóknastofnunar hefur áhyggjur af því að jökulhlaup í Hvítá hafi haft alvarlega afleiðingar fyrir bleikjustofninn í ánni. Stofninn á þegar undir högg að sækja vegna loftslagsbreytinga.

Hlaupið varð í Hvítá aðfaranótt þriðjudags þegar vatn úr lóni við jaðar Langjökuls fann sér nýja leið og hljóp fram. Hlaupið fyllti bakka árinnar af aur og leðju fram eftir öllum Borgarfirði. Víða við ána hefur fundist lax sem drapst í flóðinu.

Telur laxinn hafa sloppið 

Sigurður Már Einarsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir að laxastofninn í Hvítá sé tiltölulega lítill. Hann bindur vonir við að þótt að dauður fiskur hafi fundist hafi hann þegar að mestu verið genginn upp í hliðarár þar sem hann hrygnir.

„Nú á þessum tíma, þegar ágústlokin fara að nálgast, er stærstur hluti af göngunum þegar kominn upp í árnar. Þannig að ég tel mjög líklegt að laxastofnarnir í hliðaránum hafi sloppið tiltölulega mjög vel frá þessu.“

Hætta á að bleikja hafi orðið fyrir áfalli

Hann segist hafa meiri áhyggjur af sjóbleikjustofni í Hvítá. Bleikjan gengur upp ána til hrygningar seint á haustin og hætta er á að fiskurinn hafi orðið fyrir hlaupinu. Stofninn á þegar undir högg að sækja vegna loftslagsbreytinga.

„Ég veit ekki hvað hefur verið komið mikið af fiski þarna fram eftir til að undirbúa hrygningu. Vonandi minna en meira. sú bleikja sem hefur verið komin þangað á þessum tíma, það er hætt við að hún hafi orðið fyrir verulegum afföllum,“ segir Sigurður.

Þörf á að rannsaka áhrif hlaupsins

Enn er þó ekki hægt að segja með vissu hver áhrifin voru og Sigurður segir að rannsaka verði áhrif hlaupsins. Hann vonar hægt verði að hefja rannsóknir á næstu vikum og að fyrstu niðurstöður komi með haustinu.