Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Glögg Covid-áhrif í bóksölu

Mynd frá bókamessunni í Leipzig 2019.
 Mynd: EPA

Glögg Covid-áhrif í bóksölu

21.08.2020 - 08:29

Höfundar

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft umtalsverð áhrif á íslenska bókaútgáfu. Árið fór vel af stað og var sala á fyrstu tveimur mánuðum ársins um 20 prósent meiri en á sama tíma í fyrra en dróst svo verulega saman í mars og apríl, samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í gær.

Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, segir að þarna komi Covid-áhrifin berlega í ljós. „Viðskiptavinir hurfu úr bókaverslunum á þessum tíma. Bókamarkaður Félags bókaútgefenda var á þessum tíma og Covid skall á í restina af honum og hafði mikil áhrif á veltu.“

Þá hafði veruleg áhrif að sala í verslun Eymundsson í flugstöð Leifs Eiríkssonar dróst verulega saman þegar Covid-faraldurinn skall á, enda fáir á ferli í flugstöðinni á þeim tíma.  „Ég held að allir sem að þekki vel til mála átti sig á því hversu mikil áhrif sú velta hefur á kiljuútgáfu. Ég treysti mér nú ekki til að nefna einhverjar tölur í því samhengi en ég treysti mér þó til að segja að Eymundsson í Leifsstöð skiptir sköpum í kiljuútgáfu almennt.“

Hljóðbækur í mikilli sókn

En Íslendingar hættu þó ekki að njóta bóka í faraldrinum því á sama tíma og sala prentaðra bóka dróst saman jókst sala hljóðbóka umtalsvert. Heiðar Ingi telur að sú þróun sé varanleg. „Það höfum við líka séð á öllum mörkuðum í kringum okkur að hljóðbókasala og -útgáfa er að aukast en hvaða áhrif hún hefur á prentútgáfuna er síðan annað mál. Hljóðbókasala er líka að sækja á nýjan markað, nýja lesendur og nýja neytendahópa og sumu leyti í samkeppni við aðra netafþreyingu, podcöst og fleira.“

Jólabókaflóðið lifir

Í tölum Hagstofunnar kemur berlega í ljós að hið séríslenska fyrirbrigði, jólabókaflóðið, stendur enn traustum fótum og færist í aukana. „En það sem er líka sérstakt við íslenska markaðinn er að rafbókaútgáfa hefur ekki náð sömu fótfestu hér og annars staðar. Hún er vart mælanleg hér í heildarveltu en er töluverð bæði á Norðurlöndum og öðrum löndum í Evrópu sem við berum okkur saman við,“ segir Heiðar Ingi.