Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Framleiðsla á fötum tvöfaldaðist síðustu tuttugu ár

Mynd: Fréttastofa RÚV / Fréttastofa RÚV
Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir textíliðnaðinn ágæta birtingarmynd af ofneyslu. Miklu meira sé framleitt en þörf er á og umhverfisleg og samfélagsleg vandamál af völdum textílframleiðslu aukist hratt. Birgitta var gestur á Morgunvakt Rásar 1 í dag.

„Framleiðslan sjálf hefur bæði neikvæð áhrif á umhverfið og samfélagið. Það er gríðarlega mikil efnanotkun í öllu framleiðsluferlinu, mikið af efnum til að framleiða bómul, alls konar efni til að ná fram ákveðnum áferðum, lit og vatnsþéttleika. Sett í samhengi við hvað framleiðslan notar mikið vatn hefur framleiðslan mikil neikvæð áhrif á ferskvatn, og þá sérstaklega í Suðaustur-Asíu,“segir hún.  Einnig nefnir Birgitta viðvarandi lélegar aðstæður vinnufólks. Þetta séu allt neikvæð áhrif sem magnast eftir því sem neytendur kaupa meira.

Hver Íslendingur losar sig við 20 kg af fötum og öðrum textíl á hverju ári. Á fyrri helmingi ársins pöntuðu Íslendingar föt á netinu í fataversluninni Asos að jafnaði á átta mínútna fresti. 

Miklu meira framleitt en neytendur þurfa á að halda

„Síðan 2000 hefur framleiðsla á fötum tvöfaldast í heiminum. Þannig að vandamálið er einnig að stækka mjög hratt síðustu áratugi,“ segir Birgitta, meðan mörg önnur umhverfisvandamál sýni jafnari þróun á lengri tíma.

Birgitta segir vandamálið margþætt en þar ber hæst neysluhegðun fólks og val fataframleiðenda um að starfa innan hraðtískuviðskiptamódels. 

Samkvæmt mælingum Sameinuðu þjóðanna notar hver jarðarbúi hverja flík styttra og styttra. Í kringum 2000 var hver flík notuð í um 200 skipti en núna er fjöldi skipta kominn niður í 150.

Mengunarhlutfall textíliðnaðarins hækkar

„Beinu mengunaráhrifin eru kannski stærsta vandamálið. Þar erum við að tala um að 20% af allri mengun í iðnaði í ferskvatni sé frá textíliðnaði og að átta til tíu prósent af heildarlosun í heiminu séu frá textíliðnaðinum. Það er tala sem áætlað er að aukist, meðan gert er ráð fyrir samdrætti í öðrum stórum losunarþáttum,“ segir Birgitta. Árið 2030 er gert ráð fyrir að hún fari upp í 25% til 30%. „Þannig að þetta er iðnaður sem er springa út.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Birgitta Stefánsdóttir - RÚV
Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

 

Birgitta vekur athygli á því að svokallað Spjaraþon er framundan á vegum Umhverfisstofnunar og Saman gegn sóun, verkefni umhverfis- og auðlindaráðherra um úrgangsforvarnir. 

Spjaraþon er tveggja daga hugmyndasmiðja eða hakkaþon, þar sem þátttakendur læra um vanda textíliðnaðarins og þróa og skapa í framhaldinu lausnir sem sporna gegn textílsóun. Þátttakendur velja úr fimm spennandi áskorunum sem unnar eru í samstarfi við ráðgjafahópa og samstarfsaðila Spjaraþonsins. Viðburðinn á Facebook má sjá hér.