
Eldflaugaárásir Hamas á Ísrael magnast
Árásir um tveggja vikna skeið
Árásir hafa verið gerðar á báða bóga síðan 6. ágúst síðastliðinn. Hamas-liðar hafa ekki skotið jafnmörgum eldflaugum að Ísrael á einum degi síðan þá.
Talsmaður Hamas, Fawzi Barhum, segir samtökin óhrædd við að takast á við Ísrael. Benny Gantz varnarmálaráðherra Ísraels segir herinn tilbúinn að láta árásarmenn fá það óþvegið. Allt verði gert til að vernda ísraelska borgara.
Hann sagði jafnframt að íbúar Gaza-svæðisins þyrftu að líða fyrir stefnu Hamas-samtakanna.
Strangari herkví
Ísraelsmenn hafa hert herkví um þær tvær milljónir sem á Gaza-svæðinu búa. Sjómönnum er bannað að halda til hafs og vöruflutningar inn á svæðið hafa verið stöðvaðir. Það gæti orðið til þess að slökkva yrði á eina raforkuverinu þar vegna skorts á eldsneyti.
Egypsk sendinefnd hefur reynt að stilla til friðar líkt og undanfarin ár. Egyptar vilja með öllu móti koma í veg fyrir að stríð blossi upp milli Ísraels og Hamas-liða. Þrisvar hefur komið til stríðsátaka síðan 2008.
Vopnahlé fjármagnað frá Katar
Yfirstandandi vopnahlé milli Ísraels og Hamas byggir á stórum hluta á fjárframlögum frá Katar, einu auðugasta ríki heims. Vopnahléssamningarnir hafa verið endurnýjaðir nokkrum sinnum.
Með framlagi Persaflóaríkisins er stutt við margvíslega uppbyggingu á Gaza-svæðinu og íbúar þar hafa margir fengið leyfi til að vinna í Ísrael. Efnahagur svæðisins hefur notið góðs af en fátækt er mikil og helmingur íbúa atvinnulaus.
Kröfur Hamas-liða
Heimildir AFP-fréttastofunnar herma að rætur árása Hamas-liða á Ísreal nú liggi í tvennu. Annars vegar kröfu um aukna uppbyggingu á iðnaðarsvæði á austurhluta svæðisins og lagningu háspennulínu þangað.
Hins vegar krefjast Hamas-liðar þess að fjöldi atvinnuleyfa verði tvöfaldaður, upp í tíu þúsund, um leið og takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins verður létt.