Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eldflaugaárásir Hamas á Ísrael magnast

21.08.2020 - 17:55
Smoke rises from an explosion caused by an Israeli airstrike in Gaza City, Saturday, Oct. 27, 2018. Israeli aircraft struck several militant sites across the Gaza Strip early Saturday shortly after militants fired rockets into southern Israel, the Israeli
 Mynd: AP
Ísraelskar herþotur réðust á skotmörk á Gaza síðastliðna nótt. Með atlögunni var brugðist við eldflaugaárás Hamas-liða á bæinn Sderot í suðurhluta Ísraels, rétt handan landamæranna. Eldflaugavarnir Ísraela stöðvuðu sex flaugar en ein sprakk á þaki húss í bænum án þess að manntjón yrði.

Árásir um tveggja vikna skeið

Árásir hafa verið gerðar á báða bóga síðan 6. ágúst síðastliðinn. Hamas-liðar hafa ekki skotið jafnmörgum eldflaugum að Ísrael á einum degi síðan þá.

Talsmaður Hamas, Fawzi Barhum, segir samtökin óhrædd við að takast á við Ísrael. Benny Gantz varnarmálaráðherra Ísraels segir herinn tilbúinn að láta árásarmenn fá það óþvegið. Allt verði gert til að vernda ísraelska borgara.

Hann sagði jafnframt að íbúar Gaza-svæðisins þyrftu að líða fyrir stefnu Hamas-samtakanna.

Strangari herkví

Ísraelsmenn hafa hert herkví um þær tvær milljónir sem á Gaza-svæðinu búa. Sjómönnum er bannað að halda til hafs og vöruflutningar inn á svæðið hafa verið stöðvaðir. Það gæti orðið til þess að slökkva yrði á eina raforkuverinu þar vegna skorts á eldsneyti.

Egypsk sendinefnd hefur reynt að stilla til friðar líkt og undanfarin ár. Egyptar vilja með öllu móti koma í veg fyrir að stríð blossi upp milli Ísraels og Hamas-liða. Þrisvar hefur komið til stríðsátaka síðan 2008.

Vopnahlé fjármagnað frá Katar

Yfirstandandi vopnahlé milli Ísraels og Hamas byggir á stórum hluta á fjárframlögum frá Katar, einu auðugasta ríki heims. Vopnahléssamningarnir hafa verið endurnýjaðir nokkrum sinnum.

Með framlagi Persaflóaríkisins er stutt við margvíslega uppbyggingu á Gaza-svæðinu og íbúar þar hafa margir fengið leyfi til að vinna í Ísrael. Efnahagur svæðisins hefur notið góðs af en fátækt er mikil og helmingur íbúa atvinnulaus.

Kröfur Hamas-liða

Heimildir AFP-fréttastofunnar herma að rætur árása Hamas-liða á Ísreal nú liggi í tvennu. Annars vegar kröfu um aukna uppbyggingu á iðnaðarsvæði á austurhluta svæðisins og lagningu háspennulínu þangað.

Hins vegar krefjast Hamas-liðar þess að fjöldi atvinnuleyfa verði tvöfaldaður, upp í tíu þúsund, um leið og takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins verður létt.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV