Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Undirbúa rannsóknastofu fyrir COVID-19 sýni á Akureyri

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Nú er unnið að opnun veirurannsóknastofu hjá Sjúkarhúsinu á Akureyri til að rannsaka og greina sýni vegna COVID-19. Öll sýni utan af landi eru í dag send með flugi til Reykjavíkur og geta liðið allt að tveir sólarhringar þar til niðurstaða fæst.

Við upphaf faraldursins var farið að ræða þörfina fyrir veirurannsóknastofu á Akureyri, en undirbúningur hófst svo af krafti í byrjun sumars. Nú er komið að því að panta tækjabúnað í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið og til stendur að þjálfa starfsfólk innan SAk í samstarfi við Landspítalann.

Sambærilegt við rannsóknir á Landspítalanum

„Það sem við erum að hugsa um er að setja á laggirnar rannsóknastofu sem getur greint meðal annars þessi COVID-19 sýni,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri bráða- og þróunarsviðs SAk. „Sambærilegt við það sem er á Landspítalanum, en að sjálfsögðu í minna mæli.“

Nauðsynlegt að geta greint sýni utan Reykjavíkur

Öll þau sýni sem tekin eru á landinu í dag vegna COVID-19 eru rannsökuð og greind í Reykjavík. Hildigunnur telur mikla þörf slíka aðstöðu á Akureyri. „Í fyrsta lagi að hafa backup við höfuðborgarsvæðið og vera í stakk búin hér á Norðurlandi og á okkar upptökusvæði að geta greint þessi sýni.“

Geta þurft að bíða lengi eftir niðurstöðum

En ávinningurinn sé ekki síst fyrir þá einstaklinga sem þurfa að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku. „Við náttúrulega erum með ákveðinn forgang á sýnum sem fara á Landspítalann í dag. En það getur verið bið allt að 24 klukkustundum og það er of langur tími þegar við vitum að þetta getur tekið mun færri klukkustundir. En við erum háð samgöngum hérna líka,“ segir Hildigunnur.

Sýni úr landsmæraskimun á Norður- og Austurlandi

Hún segir að væntanleg rannsóknastofa eigi að geta unnið úr sýnum af allstóru landsvæði. „Fyrst og fremst af okkar upptökusvæði. Það er semsagt héðan frá sjúkrahúsinu og frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Nú síðar náttúrulega þegar verður farið að opna meira hér á landamærin og við séum þá að fá farþegaþotur á flugvelli hér og á Egilsstöðum, jafnvel Norrænu. Þá er auðvitað möguleiki fyrir okkur að taka hluta af þeim sýnum.“