Arnar Bergþórsson er frá Húsafelli í Borgarfirði.
„Það hefur enginn séð neitt í líkingu við þetta í ofanverðu vatnasviðinu í Hvítá. Það mátti litlu muna að þetta færi upp úr farvegum og tæki brúna yfir Hvítá fyrir ofan Húsafell. Svo mátti litlu muna að þetta kæmi bara niður í gegnum skóginn með veginum og niður í sumarbústaðabyggðina.“
Hvítá er enn gruggug og víða hefur fundist dauður lax, jafnvel fimmtán metrum frá bökkum árinnar.
Yfirborð Hvítár hefur hækkað um hátt í tvo metra. Svo mikill aur barst með flóðinu að drullan er víða tugir sentímetra á þykkt.
Vatnið kom úr jaðarlóni við Langjökul
Hlaupið kom úr lóni sem myndaðist við Langjökul árið 2008 og hefur farið stækkandi. Alla jafna rennur úr lóninu til norðurs, í Flosavatn sunnan Eiríksjökuls. Nú rann úr því til suðurs, undir jökulsporðinn og ofan í Svartá þaðan sem það barst í Hvítá.
Orsökina má rekja til hörfunar Langjökuls.
Tómas Jóhannesson er sviðsstjóri hjá Veðurstofu Íslands.
„Menn hafa gert ráð fyrir því að ámóta flóð yrðu úr lónum sem eru að myndast víða við jökla landsins. Við þekkjum dæmi um það á mörgum stöðum á landinu að vatnsföll hafa verið að breyta um farvega vegna hörfunar jöklanna eða að það hafi verið að myndast eða hverfa lón. Þetta er eitt af allmörgum dæmum um það.“
Hann segir að tíminn muni leiða í ljós hvort hlaup verði í Hvítá að nýju.
„Það er ekkert ólíklegt að vatnsfarvegurinn undir jöklinum grói saman aftur og þá fari að hækka aftur í lóninu og þá hlaupi að nýju. Sum þessara jaðarlóna eru með þeim hætti.“