Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Svíþjóð: Minni fólksfjölgun og fleiri dauðsföll

20.08.2020 - 05:49
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Svíum fjölgaði helmingi minna á fyrri helmingi þessa árs en á sama tíma í fyrra. Á sama tímabili voru dauðsföll þar í landi umtalsvert fleiri en í meðalári. Þetta kemur fram í tölum sænsku hagstofunnar, SCB.

 

Samkvæmt þeim voru íbúar Svíþjóðar 10.352.390 þann 30. júní. Það eru 24.801 fleiri en um áramót. Er þetta minnsta fólksfjölgun sem orðið hefur í Svíþjóð í 15 ár og helmingi minni en fyrri árshelming 2019, þegar Svíum fjölgaði um 51.004. Og það er sama hvort litið er til fæðinga eða innflytjenda; hvort tveggja hefur dregist saman um nokkurn veginn helming.

Um 10 prósentum fleiri dauðsföll en í meðalári

Dauðsföllum hefur aftur á móti fjölgað og hafa raunar aldrei verið fleiri á fyrri árshelmingi síðan í mikilli hungursneyð seint á 19. öld. 51.405 dóu í Svíþjóð frá áramótum til júníloka; 4.633 fleiri en að meðaltali síðustu fimm ára á undan.

Munurinn, svokölluð umframdauðsföll, nemur um 10 prósentum og eru hlutfall umframdauðsfalla sýnu hærra meðal karla (13 prósent) en kvenna (7 prósent). Það kemur ekki á óvart að umframdauðsföllunum fjölgaði mjög í mars og náðu hámarki í apríl, þegar um 40 prósnetum fleiri dóu í Svíaríki en í meðalmánuði.

Er þessi þróun í takt við framgang kórónaveirufaraldursins í Svíþjóð, þar sem 5.802 hafa dáið úr COVID-19 og 85,411 smit verið staðfest.