Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skar út veggfóður og flutti í heilu lagi heim

Mynd: RÚV / RÚV

Skar út veggfóður og flutti í heilu lagi heim

22.08.2020 - 10:56

Höfundar

„Það er náttúrulega enginn ósnertur af umhverfinu,“ segir Davíð Örn Halldórsson myndlistarmaður sem opnaði nýverið sýninguna Ókei, au pair í Hverfisgalleríi.

Davíð Örn býr og starfar í Stuttgart í Þýskalandi. Hann sækir sér efnivið í listaverkin úr ýmsum áttum, til að mynda málar hann á borðplötu sem hann fann á götum borgarinnar. „Þessa borðplötu fann ég, pússaði upp og lagaði. Ég fann hann úti á götu, í Þýskalandi og víðar í Evrópu er fyrirkomulagið þannig að ef fólk heldur að hlutirnir séu nýtanlegir á einhvern hátt, gamlir skápar eða hvaðeina, þá setur það þá út á gangstétt og maður fær tvo til þrjá daga til að gramsa í því og taka það með sér heim. Þannig að ég finn hvern fjársjóðinn á fætur öðrum til að vinna með og ég held meira að segja að á þessari sýningu séu engar tvær myndir eins, ég held að þær séu allar mismunandi í stærðum,“ segir Davíð Örn.

Viður og veggfóður

„Efniviðurinn er mismunandi viðartegundir og hvaðeina; stofuborð, skápar og annað. Svo fór ég að vinna með veggfóðrið á vinnustofunni, sem ég ákvað að taka niður og flytja til Íslands. Verkin svolítið öðlast aðeins meira með því að koma inn í snyrtilegt rými eftir að hafa verið eins og hráviði á vinnustofunni.“

„Það er náttúrulega enginn ósnertur af umhverfinu,“ segir Davíð Örn Halldórsson myndlistarmaður sem opnaði nýverið sýninguna Ókei, au pair í Hverfisgalleríi.
 Mynd: RÚV

Aðspurður segir hann viðfangsefni verkanna á reiki. „Það er svolítið tilviljanakennt, bæði með efnið sem ég mála og efnið sem ég nota. Tengingin er þannig kannski efnisleg frekar en hugmyndaleg. Þetta er iðnaðarlakk, sprey og allt sem ég kemst yfir í raun og veru. Þau eru öll unnin á tveggja ára tímabili þannig að þetta er rosa mikið af hugmyndum sem maður er að troða í verkin.“

Í friði inni á vinnustofu

Samtímaástandið setti að einhverju leyti mark sitt á aðdraganda og undirbúning sýningarinnar. „Maður fann kannski ekki mikla breytingu fyrir sjálfan sig af því að maður vinnur einn og er bara inni á vinnustofu þar í friði en á síðustu metrunum fyrir þessa sýningu, að vinna þessi verk og að koma þeim heim hefur gefið manni tíma til að hugsa um þau á annan hátt og í umhverfinu sem þau urðu til.“

„Það er náttúrulega enginn ósnertur af umhverfinu,“ segir Davíð Örn Halldórsson myndlistarmaður sem opnaði nýverið sýninguna Ókei, au pair í Hverfisgalleríi.
 Mynd: RÚV

Sýningin stendur til 24. október. Allar nánari upplýsingar má finna hér.