Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Sjóðirnir eru komnir að þolmörkum“

Mynd með færslu
 Mynd:
Fleiri hafa sótt um aðstoð hjálparsamtaka í ár en í fyrra. Hjálparstarf kirkjunnar býr sig undir enn meiri aukningu og erfiðan vetur og Hjálpræðisherinn sér fram á talsvert fleiri beiðnir um aðstoð en í fyrra.

Kristín Ólafsdóttir, fræðslustjóri hjá Hjálparstarfi kirkjunnar segir að umsóknum hafi fjölgað mikið það sem af er ári. „Við höfum fundið það undanfarna fimm mánuði að umsóknum hefur fjölgað þannig hjá okkur að þær eru 41% fleiri á þessum mánuðum núna í ár miðað við árið í fyrra.“

Kristín segir að mataraðstoð sé algengasta tegund aðstoðar sem Hjálparstarf kirkjunnar veitir. Hjálparstarfið aðstoðar einnig fjölskyldur í upphafi skólaárs við að kaupa fatnað og námsgögn og greiða æfingagjöld. Kristín segist telja að fleiri muni sækja um slíka aðstoð.  „Tilfinningin er að það verði meira,“ segir Kristín.

Ingvi Kristinn Skjaldarson flokksleiðtogi hjá Hjálpræðishernum segir að beiðnum um aðstoð hafi fjölgað mikið og að fleira ungt fólk sæki um. „Í maí vorum við búin að greiða út sömu upphæð og við greiddum út í matarstyrki á síðasta ári, við vorum komin yfir þá upphæð sem við tókum allt síðasta ár, þar með talið jólaaðstoðin sem er í stærsta einstaka mánuðinum, desember.

„Við horfum fram á að þetta verði líklegast í kringum rúmlega 200 % aukning, ef ég horfi á allt árið. Sjóðirnir hjá Hjálpræðishernum eru komnir að þolmörkum þrátt fyrir að við höfum fengið góða og dygga aðstoð hjá ýmsum ráðuneytum,“ segir Ingvi.