Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Segir Trump vilja skipta á Grænlandi og Púertó Ríkó

20.08.2020 - 11:37
President Donald Trump speaks during a roundtable discussion about "Transition to Greatness: Restoring, Rebuilding, and Renewing," at Gateway Church Dallas, Thursday, June 11, 2020, in Dallas.(AP Photo/Alex Brandon)
 Mynd: AP
Fyrrum starfsmannastjóri heimavarnaráðherra í ríkisstjórn Bandaríkjanna, Miles Taylor, sagði í sjónvarpsviðtali í dag að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi viðrað þá hugmynd sína að Bandaríkin og Danmörk skipti á Púertó Ríkó og Grænlandi. Hann kveðst telja að forsetinn hafi ekki verið að grínast.

Sem kunnugt er lýsti Trump yfir áhuga sínum á að kaupa Grænland í ágúst í fyrra. Hugmyndinni var mjög fálega tekið á Grænlandi og í Danmörku og sögðu ráðherrar hana fáránlega. Í kjölfarið hætti Trump við fyrirhugaða opinbera heimsókn sína til Danmerkur.

Starfsmannastjórinn fyrrverandi er í dag svarinn andstæðingur Trump og hefur komið fram í sjónvarpsauglýsingu gegn forsetanum. Í viðtali á sjónvarpsstöðinni MSNBC í dag var hann spurður að því hvert væri skrítnasta samtalið sem hann átt við Trump. Taylor sagði það hafa verið þegar þeir voru á leið til Púertó Ríkó í ágúst 2018 eftir að fellibylurinn Dorian hafði farið þar yfir. Fjallað er um málið í danska fjölmiðlinum Berlingske.

„Áður en við fórum sagði forsetinn ekki aðeins að hann vildi kaupa Grænland, heldur að hann vildi kanna þann möguleika að selja Puerto Rico. Kannski gætum við skipt á Puerto Rico og Grænlandi?“ segir Taylor að Trump hafi sagt.

Starfsmannastjórinn fyrrverandi var spurður að því í sjónvarpsviðtalinu hvort forsetinn hafi örugglega ekki verið að grínast en hann sagðist ekki telja að svo hafi verið, Trump hafi oft rætt um að kaupa Grænland og talað illa um fólk á Púertó Ríkó. Forsetinn hafi sagt að Púertó Ríkó væri „óhreint og fullt af fátæku fólki“, sagði Taylor.

Forsetinn hefur ekki brugðist við þessari frásögn starfsmannastjórans fyrrverandi.