
Segir notkun eiturs hafa aukist í stjórnartíð Pútíns
Greint var frá því í gærkvöldi að Alexei Navalny, einn helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, sé þungt haldinn og meðvitundarlaus og að grunur liggi á að eitrað hafi verið fyrir hann.
Stefnt er að því að flytja Alexei Navalny á Charite-sjúkrahúsið í Berlín í Þýskalandi í kvöld. Það eru þýsku samtökin Cinema for Peace Foundation sem standa að flutningnum ásamt flokksfélögum Navalnys.
Stjórnarandstæðingurinn Vladimír Kara-Murza, sem er varaformaður Free Russia Foundation samtakanna sem staðsett eru í Washington, segir árásina á Nalvany vera hluta af auknum eiturárásum öryggissveita í Kreml gegn þeim sem gagnrýna rússnesk stjórnvöld.
Kara-Murza hefur sjálfur lifað af eitrað væri fyrir honum í tvígang að sögn Reuters fréttaveitunnar.
Óskar Navalny skjóts bata
Dimitrí Peskov, talsmaður rússnesku stjórnarinnar segir allar ásakanir um eitrun þurfi að staðfesta með rannsókn og að læknar séu að gera allt sem þeir geta til að hjálpa Navalny, sem hann sjálfur óski skjóts bata.
Kara-Murza segir Reuters að hann telji ástæðu eitrunarinnar kunna að tengjast stuðningi Navalnys við stjórnarandstæðinga sem gefið hafa kost á sér í héraðskosningum í Rússlandi í næsta mánuði. Mótmælin sem staðið hafa yfir í Hvíta-Rússlandi eftir umdeild úrslit forsetakosninga fyrr í mánuðinum kunni þá einnig að hafa sitt að segja.
Eitrað var fyrir Kara-Murza árið 2015 og 2017 og lifði hann báðar árásirnar af. Hann segir að þó að rússnesk stjórnvöld hafi lengi notað eitur til að losa sig við andstæðinga, þá hafi notkun þess aukist verulega í stjórnartíð Pútíns.
„Athygli heimsins getur bjargað lífi,“ sagði Kara-Murza og bætti við að lýðræðisríki verði að beina sjónum sínum áfram að Navalny þar sem mun auðveldar sé að fremja glæpi í myrkrinu.