Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Opna áfangaheimili fyrir konur í miðborginni

Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Borgarráð samþykkti í dag þá tillögu velferðarráðs að opna nýtt áfangaheimili fyrir konur í miðborginni. Fjórtán einstaklingsíbúðir verða á heimilinu, sem verður ætlað fyrir konur sem hafa hætt neyslu. Brátt verða hafnar viðræður við félagið Rótina um rekstur Konukots.

Áfangaheimili er tímabundið húsnæði fyrir fólk sem hefur átt við áfengis- og annan vímuefnavanda að stríða og er í virkri endurhæfingu eftir meðferð en í brýnum húsnæðisvanda, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Markmiðið er að bjóða einstaklingum sem hætt hafa neyslu öruggt heimili, stuðning og aðhald meðan þeir aðlagast samfélaginu á nýjan leik. Níu áfangaheimili eru í Reykjavík sem stendur og eru þau ýmist rekin af Reykjavíkurborg eða félagasamtökum.

Þjónustan hefur frekar verið sniðin að körlum

Á áfangaheimilinu verður unnið eftir áfallamiðaðri hugmyndafræði í náinni samvinnu við göngudeildarþjónustu Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Í tilkynningu borgarinnar segir að opnun áfangaheimilisins sé mikilvægt skref í þá átt að bæta þjónustu við heimilislausar konur í borginni. Hún hafi frekar verið sniðin að þörfum karla en kvenna. „Húsnæðisvandi kvenna er oft dulinn og tilraunir til að mæta þörfum þeirra með sérstökum úrræðum hafa ekki borið nægilegan árangur. Konur þurfa skjól og öryggi þar sem þeim er mætt á þeirra forsendum,“ er haft eftir Heiðu Björgu Hilmisdóttur, formanni velferðarráðs Reykjavíkur í tilkynningunni.

Ræða við Rótina um rekstur Konukots

Velferðarráð borgarinnar hefur falið velferðarsviði að hefja viðræður við Rótina, félag um konur, áföll og vímugjafa, um rekstur Konukots, neyðarskýlis fyrir heimilislausar konur.