Nokkrir farþegar fóru í búð en ekki beint í sóttkví

20.08.2020 - 15:12
Norræna, Smyril Line
 Mynd: Malín Brand
Nokkrir farþegar sem komu með Norrænu til Seyðisfjarðar í morgun fóru beina leið í kjörbúð, þrátt fyrir að slíkt sé ekki leyfilegt enda ber öllum sem koma til landsins að fara í sýnatöku, í sóttkví í fimm til sex daga og aftur í sýnatöku. Lögreglan á Austurlandi hafði afskipti af þessum örfáu farþegum Norrænu sem ekki virtust hafa áttað sig á fyllilega á hertum reglum sem tóku gildi í gær.

Allir farþegar Norrænu fengu leiðbeiningar um reglurnar, að því er segir í tilkynningu aðgerðastjórnar á Austurlands, sem birt er á Facebook-síðu Lögreglunnar á Austurlandi. Fólkið fór á dvalarstað sinn eftir afskipti lögreglu.

Um tvö hundruð manns komu til landsins í morgun með Norrænu og bar þeim öllum að sýna fram á hvar þeir myndu dvelja í sóttkví. Í tilkynningunni segir að nokkur fjöldi þeirra sé á Austurlandi. 

Aðgerðastjórnin hvetur íbúa til árverkni sem fyrr og huga vel að eigin smitvörnum, svo sem tveggja metra reglunni. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi