
Glæparannsókn í Hvíta-Rússlandi vegna andófshóps
Lúkasjenkó hefur verið við völd í Hvíta-Rússlandi í 26 ár en landið varð sjálfstætt ríki við fall Sovétríkjanna árið 1991. Á tímum yfirráða Sovétríkjanna var Lúkasjenkó, sem er fæddur 1954, yfirmaður á samyrkjubúi.
Hann var þegar í upphafi forsetatíðar sinnar sakaður um einræðistilburði enda gerði hann stjórnarskrárbreytingar til að tryggja völd sín og áhrif.
Andófshópur Tíkanovskaju
Svetlana Tíkanovskaja, landflótta frambjóðandi í forsetakosningunum, kom á laggirnar hópi andófsfólks sem ætlað er að skipuleggja friðsamleg valdaumskipti í landinu.
Í skipulagshópnum er meðal annarra Nóbelsverðlaunahafinn í bókmenntum Svetlana Alexievich. Hún er yfirlýstur andstæðingur Lúkasjenkós og kallaði eftir nýjum kosningum á fyrsta fundi hópsins í dag.
Alexander Konyuk, ríkissaksóknari Hvíta-Rússlands, segir myndun hópsins vera í andstöðu við stjórnarskrá og sé eingöngu hugsuð til þess að grafa undan þjóðaröryggi og að steypa Lúkasjenkó af stóli. Refsing við slíkum glæpum sé fimm ára fangelsi.
Fyrr í vikunni kallaði forsetinn eftir að landamæri ríkisins væru varin, til að koma í veg fyrir straum vopna, skotfæra og peninga inn í landið til að fjármagna óeirðirnar.
Fulltrúar stjórnarandstöðunnar greindu frá því að lögfræðingurinn Maxim Znak, sem tilheyrir skipulagshópi Tíkanovskaju, hefði verið kallaður til yfirheyrslu á morgun, föstudag.
Bandaríkin styðja málstað mótmælenda
Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna lýsti í dag yfir stuðningi við mótmælendur í Hvíta-Rússlandi. Hann segir bandarísk stjórnvöld snortin yfir hve friðsamlega þarlendir borgarar hafi tjáð óskir sínar um ákvörðun eigin framtíðar.
Pompeo kveður Bandaríkjastjórn styðja fullveldi Hvíta-Rússlands og yfirráð eigin landsvæðis en ekki síður þrá þjóðarinnar til að velja eigin leiðtoga án utanaðkomandi afskipta.
Jafnframt áréttar utanríkisráðherrann að stjórnin telji alvarlega ágalla á forsetakosningunum. Hann hvetur ríkisstjórnina í Minsk til samræðna við skipulagshóp Tíkanovskaju og fordæmir ofbeldi gegn mótmælendum í landinu.
Kallað eftir stuðningi Rússa
Leiðtogar Evrópusambandsins viðurkenna ekki úrslit forsetakosninganna 9. ágúst síðastliðinn og telja að grípa skuli til refsiaðgerða gegn þeim sem bera ábyrgð á kúgun, ofbeldi og kosningasvindli í landinu.
Talskona Tíkanovskaju segir þá ákvörðun sambandsins vera fyrsta skrefið í átt að viðurkenna hana sem réttkjörinn forseta landsins. Hún kvað þó líklegt að það gæti tekið langan tíma að fá Lúkasjenkó til að stíga til hliðar.
Yesterday #EU27 expressed solidarity with the people of #Belarus in their desire to determine their own future.
Today I reiterated this to President Putin @KremlinRussia_E
There is only one way forward: through political inclusive dialogue & a peaceful and democratic process.
— Charles Michel (@eucopresident) August 20, 2020
Sömuleiðis ræddi Charles Michel forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins við Vladimír Pútín Rússlandsforseta og hvatti hann til að miðla málum milli Lúkasjenkós og stjórnarandstöðunnar.
Viðbrögð Pútíns voru að afskipti af innanríkismálum Hvíta-Rússlands nú gætu haft þveröfug áhrif við það sem ætlunin væri.
Stephen Fry styður hvítrússneskan almenning
Breaking into my twitter holiday for an important reason.... #standwithbelarus pic.twitter.com/bJNdiZfeHh
— Stephen Fry (@stephenfry) August 20, 2020
Breski skemmtikrafturinn Stephen Fry hvetur í nýju myndbandi til stuðnings við lýðræðisumbætur í Hvíta-Rússlandi. Hann brýnir ríkisstjórn Bretlands að grípa til harðra refsiaðgerða gegn stjórn Lúkasjenkós. „Breytinga er þörf,” segir Fry, en án borgarastyrjaldar eða byltingar.
Milliganga Evrópusambandsins og Rússa mikilvæg
Emmanuel Macron forseti Frakklands og Angela Merkel Þýskalandskanslari héldu sameiginlegan blaðamannafund í dag. Þar stungu þau upp á milligöngu Evrópusambandsins og Rússlands í málefnum Hvíta-Rússlands. Merkel segir Lúkasjenkó ekki hafa gert nokkra tilraun til að hafa samband við leiðtoga sambandsins.
Mótmælendur söfnuðust saman í Minsk í dag, tólfta daginn í röð, við Janka Kupala leikhúsið. Það var til stuðnings stjórnanda leikhússins og fyrrverandi menningarmálaráðherra, Pavel Latushko. Hann var rekinn úr embætti fyrir að hvetja til nýrra forsetakosninga og hefur gengið til liðs við andspyrnuhóp Tíkanovskaju.
Boðað hefur verið til mikilla mótmæla í Minsk næskomandi sunnudag.