Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ellefu taílenskir mótmælendur ákærðir fyrir undirróður

20.08.2020 - 14:40
epa08614442 Pro-democracy activist and rapper Thanayut 'Book' Na Ayutthaya flashes the three-finger salute as he is put into the back of a police van at a police station in Bangkok, Thailand, 20 August 2020. At least eight pro-democracy activists were arrested by police officers on 19 August and charged with violating an emergency decree and instigating political disturbance. Thailand has been witnessing mounting protests against its military-aligned government and the pro-monarchy elite. Protesters have been asking for political and monarchy reforms.  EPA-EFE/DIEGO AZUBEL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nokkrir taílenskir andófsmenn voru handteknir í dag. Alls hafa því ellefu verið handekin úr lýðræðishreyfingu ungs fólks sem hefur kallað eftir breytingum á ríkisstjórn landsins og nýrri stjórnarskrá ásamt lögum um konungsfjölskyldu landsins.

Undanfarinn mánuð hefur verið mótmælt nær daglega í Taílandi. Meðal þeirra sem nú voru handtekin eru tvær rappstjörnur og ötull mannréttindalögfræðingur. Fjórar handtökutilskipanir hafa verið gefnar út til viðbótar að sögn lögreglu.

Karoon Hosakul þingmaður stjórnarandstöðuflokksins Pheu Thai segir að öll þau sem eru í haldi hafi tekið þátt í mótmælum í Bangkok 18. júlí sem urðu kveikjan að mótmælaöldunni. Ákærur á hendur fólkinu eru í átta liðum að sögn þingmannsins, þar á meðal fyrir undirróðursstarfsemi.

Þing verð leyst upp og ný stjórnarskrá samin

Mótmælendur í Taílandi telja að núverandi forsætisráðherra Prayut Chan-O-Cha hafi tryggt sér sigur í kosningum á síðasta ári fyrir tilstuðlan ákvæða sem herstjórnin bætti í stjórnarskrá landsins fyrir þremur árum.

Önnur af rappstjörnunum gaf út vinsælt lag fyrir þær kosningar til að mótmæla kúgun herstjórnarinnar. Þess er nú krafist að þingið verði leyst upp og ný stjórnarskrá samin.

Einnig vegur þungt kall eftir því að ekki verði lengur refsivert að ófrægja konungsfjölskylduna. Ekkert hinna handteknu hefur þó verið ákært fyrir drottinsvik.

Valdamikill og auðugur konungur sem ekki má gagnrýna

Núverandi konungur, Maha Vajiralongkorn, tók við völdum árið 2016 og hefur gert talsverðar breytingar á embættinu. Hann er mjög valdamikill, studdur af herstjórninni og auðkýfingum Taílands.

Vajiralongkorn konungur nýtur einnig stuðnings hópa konungssinna sem koma saman á götum úti. Frá því að hann tók við völdum hefur hann sölsað persónulega undir sig auðæfi hirðarinnar sem talin eru nema um 60 milljörðum Bandaríkjadala, jafngildi ríflega átta þúsund milljarða króna.

Fjöldi miðskólanemenda í Taílandi hefur gengið til liðs við lýðræðisbaráttuna í landinu. Þau sýna samstöðu sína með því að hnýta hvíta borða í hár sitt eða á skólatöskur sínar.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV