Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki þjóðfélag sem við viljum lifa í

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að innan hennar flokks séu uppi áhyggjur um hversu mikið frelsi borgaranna hefur verið skert í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum. Hún telur að nýjar reglur á landamærunum gangi of langt og í þeim felist of mikil inngrip í friðhelgi einkalífsins.

Sigríður sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 að það væri ótækt að jafn viðamiklar og ótímabundnar aðgerðir séu ákvarðaðar með reglugerð án aðkomu þingsins. Hún spyr, í ljósi nýlegra ummæla sóttvarnalæknis um að það hafi tekist að ná tökum á faraldrinum, hvort þörf hafi verið á þeim reglum sem tóku gildi í gær.

„Þannig að það segir mér að aðgerðirnar sem voru í gildi áður en hörðu aðgerðirnar tóku gildi, þær voru að virka bara svona ljómandi vel. Áður en að þessar hörðu aðgerðir tóku gildi á landamærunum. Maður hlýtur þá að spyrja hvað kallaði á að þessar hörðu aðgerðir voru teknar upp í gær.“

Forðast beri óraunhæfar reglur

Sigríður sagði jafnframt að það beri að forðast að setja reglur sem óraunhæft er að fólk fylgi. Nefndi hún sem dæmi fimm daga sóttkví við komuna til landsins, þar sem fólk þarf að loka sig inni í herbergi, forðast samneyti við annað heimilisfólk og sótthreinsa alla fleti. „Er líklegt að menn geti framfylgt þessum reglum? Menn eiga að forðast að setja óraunhæfar reglur, það er óraunhæft að fólk framfylgi þessu.“

Eins setur Sigríður spurningarmerki við eftirfylgnina, það er hvernig yfirvöld eigi að sjá til þess að reglunum sé framfylgt. „Það er verið að hringja í fólk og spyrja hvar ertu. Einhvern veginn hefur þetta fólk fundist sem átti að vera í sóttkví en var ekki í sóttkví og allt þar fram eftir götunum. Erlendis hefur lögreglan verið að fara heim til fólks, sums staðar þar sem hefur verið „lockdown“ í margar vikur. Þetta er bara hræðilegt, þetta er ekki þjóðfélag sem við viljum held ég lifa í og byggja upp. Hvorki til skamms tíma né langs tíma.“