Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ekki fleiri dauðsföll í Svíþjóð síðan 1869

epa08405054 State epidemiologist Anders Tegnell (C) of the Public Health Agency of Sweden talks with reporters after holding a news conference providing his daily update to the media and general public on the ongoing pandemic of the COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus, in Stockholm, Sweden, 06 May 2020.  EPA-EFE/CLAUDIO BRESCIANI *** SWEDEN OUT
 Mynd: epa
Talsvert fleiri hafa látist í Svíþjóð á fyrri hluta þessa árs en á sama tíma og í fyrra. Sænsk heilbrigðisyfirvöld gripu ekki til harðra viðbragða við kórónuveirufaraldrinum í vor. Ekki virðist hjarðónæmi það hafa náðst sem sóttvarnarlæknir bjóst við.

Fimmtán prósent fleiri létust í Svíþjóð fyrstu sex mánuði ársins 2020 en á sama tíma í fyrra. Um 5.800 af 51 þúsund dauðsföllum eru af völdum kórónuveirufaraldursins, samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum. Til samanburðar hafa 264 látist í Noregi af völdum faraldursins.

Ekki hafa jafnmörg dauðsföll verið skráð í Svíþjóð frá árinu 1869 þegar hungursneyð gekk yfir. Fæðingar eru sömuleiðis í lágmarki í landinu auk þess sem 35% færri fluttust þangað erlendis frá.

Aðeins 7,3% íbúa Stokkhólms hafa þróað með sér mótefni gegn kórónuveirunni þrátt fyrir að ekki hafi verið gripið til harðra sóttvarnaraðgerða í vor.

Megnið af veitingahúsum, skólum og snyrtistofum fékk að hafa opið sem endranær og treyst á að almenningur gætti að eigin smitvörnum. Til að hjarðónæmi náist þurfa 70 til 90 af hundraði að mynda mótefni.

Sænskum heilbrigðisyfirvöldum hefur helst verið legið á hálsi fyrir fjölda andláta á öldrunarheimilum í landinu. Sóttvarnalæknir Svía Anders Tegnell kvaðst fyrr í sumar ekki hafa gert sér grein fyrir að veiran gæti breiðst út með viðlíka hætti og hún gerði á slíkum heimilum.

Eins kom það honum á óvart hve margir létust. Tegnell segir jafnframt að með réttum viðbrögðum hafi tilfellum fækkað þar mjög og væru nú nánast engin. Tegnell hefur iðulega sagt að margt hefði mátt gera betur í Svíþjóð en á heildina séð hafi verið brugðist rétt við kórónuveirufaraldurinn.

Faraldurinn hefur haft þung áhrif á efnahagslega afkomu Svía. Ferðamannaiðnaðurinn hefur dregist mjög saman og útflutningur iðnaðarvara sömuleiðis, sem stendur undir helmingi efnahags Svíþjóðar. Búist er við 5% samdrætti á árinu 2020 og að hundruð þúsunda verði atvinnulaus.