Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

COVID-smitaður á hóteli þar sem ríkisstjórnin borðaði

Ríkisstjórn fundar á Suðurlandi
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra. Ríkisstjórnin fundaði á Suðurlandi á þriðjudag.  Mynd: RÚV
Starfsmaður á Hóteli á Suðurlandi, þar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar snæddu á þriðjudaginn, greindist með kórónuveirusmit í dag. Þetta staðfesti Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í samtali við fréttastofu.

Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, segir að haft hafi verið samráð við sóttvarnalækni og niðurstaðan hafi verið sú að ekki sé ástæða til að ráðherrarnir geri sérstakar ráðstafanir vegna þessa.

„Starfsmaður á hóteli þar sem ríkisstjórnin snæddi hefur greinst jákvæður,“ segir Róbert. „En hann kom aldrei inn í salinn þar sem ríkisstjórnin borðaði, eftir því sem best er vitað.“ Róbert segir að þegar grunur vaknaði um smit hafi verið haft samband við sóttvarnalækni og niðurstaðan hafi verið sú að miðað við þær sóttvarnaráðstafanir sem nú eru í gildi hafi ekki verið ástæða til að ráðherrar gerðu ráðstafanir vegna þessa.

Kjartan Hreinn segir að smitið sé nú í rakningu og ferðir viðkomandi raktar. „Þessi tiltekni starfsmaður var ekki að þjónusta samkomu sem var á vegum ríkisstjórnarinnar,“ segir hann.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu snæddi ríkisstjórnin á Hótel Rangá. Starfsmaðurinn veiktist í morgun og var sýni tekið úr honum um hádegisleytið og því komið með hraði til Reykjavíkur til greiningar. Niðurstaða hennar lá svo fyrir síðdegis.

Hótel Rangá lokað tímabundið

Fram kemur í tilkynningu sem Hótel Rangá sendi frá sér nú fyrir skemmstu að hótelinu hafi verið lokað tímabundið vegna Covid-19 smits sem þar hafi greinst.

Smitrakningar og sýnatökur séu í gangi.

„Vegna þessa verður hótelið lokað næstu daga á meðan umfang er upplýst og sótthreinsun fer fram,“ segir í tilkynningunni.

Fréttin hefur verið uppfærð.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir