Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

ASÍ leggur til að grunnbætur hækki strax um tæp 10%

Mynd með færslu
Drífa Snædal, forseti ASÍ Mynd: ASÍ
ASÍ leggur til að grunnbætur verði hækkaðar þegar í stað, tímabil tekjutengingar lengt, tekjutengdar bætur greiddar í tvöfalt lengri tíma og að dregið verði úr skerðingum. Þá vill ASÍ lengja framlengja hlutabótaleiðina til 1. júní á næsta ári.Samhliða þurfi að standa að atvinnusköpun og uppbyggingu.

Þetta kemur fram í minnisblaði frá ASÍ, þar sem gerð er grein fyrir áherslum sambandsins á þessu sviði. Þar segir að forða þurfi fólki sem misst hafi vinnu frá enn fleiri áföllum. Nauðsynlegt sé að árétta að atvinnuleysisbætur komi í stað heildarlauna þeirra sem missa atvinnuna, en ASÍ leggur til að grunnbætur atvinnuleysistryttinga hækki úr 289.510 í 318.250 krónur sem er hækkun um 9,9%.

„Því er mikilvægt að tryggja þeim sem missa atvinnuna svigrúm til að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar,“ segir í minnisblaðinu. Þar segir ennfremur að tekjufall einstaklinga hafi dómínó-áhrif á hagkerfið í heild sinni og geti leitt til þess að kreppan vegna COVID-19 verði dýpri og langvinnari en ella.

Lagðar eru til aðgerðir í sjö liðum. 

  1. Hækkun grunnatvinnuleysisbóta: Hækkun grunnbóta í 95% af dagvinnutekjutryggingu. Bótafjárhæð hækki úr kr. 289.510 í kr. í 318.250, þ.e. um 9,9% frá núverandi fjárhæð.
  2. Tekjutengdar atvinnuleysisbætur greiðist í sex mánuði: Tekjutengdar bætur eru nú greiddar í þrjá mánuði að loknum tveggja vikna biðtíma þar sem greiddar eru grunnbætur. ASÍ leggur til að tekjutengdar bætur verði greiddar frá fyrsta degi atvinnuleysis og í allt að sex mánuði og að hámark tekjutengingar verði hækkað í kr. 650.000.
  3. Þak tekjutengdra atvinnuleysisbóta lág- og millitekjufólks verði hækkað: Fyrri tekjur upp að dagvinnutekjutryggingu, sem nemur nú kr. 335.000 skerði ekki tekjutengdar atvinnuleysisbætur.
  4. Lenging bótaréttar atvinnuleysistrygginga í 3 ár: Bótatímabil atvinnuleysistrygginga var stytt úr þremur árum í tvö og hálft ár í upphafi árs 2015.Núverandi ástand eykur hættuna á að langtímaatvinnuleysi aukist og að aukinn fjöldi fólks fullnýti bótarétt sinn og hafi þá ekki að öðru að hverfa en fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Bótatímabil atvinnuleysistrygginga verði því lengt úr 30 mánuðum í 36 mánuði.
  5. Fjármagn til vinnumarkaðsaðgerða tryggt í fjármálaáætlun: Fullnægjandi fjármagn verði tryggt í fjármálaáætlun til næstu ára til að halda úti vinnumarkaðsaðgerðum með þjónustu, stuðningi og námstækifærum fyrir atvinnuleitendur.
  6. Lög um atvinnuleysistryggingar endurspegli betur möguleika til þátttöku í virkniúrræðum: Endurskoða þarf lögin um atvinnuleysistryggingar til að mæta betur möguleikum atvinnuleitenda til að nýta náms- og önnur virkniúrræði sem eru í boði og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.
  7. Framlenging hlutabótaleiðarinnar:  Þar sem allt útlit er fyrir að beita þurfi sóttvarnaraðgerðum sem takmarka ýmsa starfsemi til skemmri eða lengri tíma næstu misserin telur ASÍ rétt að framlengja núgildandi hlutabótaúrræði sem nýst hefur vel á undanförnum mánuðum. Með því má draga úr atvinnuleysi og koma í veg fyrir að fjöldi fólks missi með öllu ráðningasamband sitt og tengsl við vinnumarkaðinn. Núgildandi hlutabótaleið verði framlengd til 1. júní 2021.
annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir