Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Aðgerðirnar koma ekki eins niður á öllum

20.08.2020 - 09:54
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
„Þær aðgerðir sem þurft hefur að grípa til koma ekki eins niður á öllum. Þetta skapar hættu á togstreitu í samfélaginu, spennu og mögulegri óeiningu, einmitt þegar ríður mest á að við náum að standa saman.“ Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, við upphaf samráðsfundar stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til lengri tíma vegna kórónuveirunnar. Hún undirstrikaði mikilvægi þess sætta ólík sjónarmið á þessum erfiðu tímum.

Samráðsfundurinn hófst klukkan níu í morgun og stendur til eitt. Hægt er að fylgjast með streymi fundarins hér. Fundurinn ber yfirskriftina „Að lifa með veirunni“ en efnt var til hans af heilbrigðisráðherra, í samvinnu við forsætis- og dómsmálaráðuneytið, samkvæmt tillögu sóttvarnarlæknis.

„Þetta ástand hefur reynt á okkur öll, en með ýmsum og ólíkum hætti – við skulum líka hafa í huga að þetta snýst ekki bara um sóttvarnir – við stöndum frammi fyrir áskorunum sem snúa að lýðheilsu þar sem heilsa, félagslegir og efnahagslegir þættir hafa mikil áhrif. Aðstæður einstaklinga eru ólíkar og hagsmunir eru ólíkir eftir hópum af einstökum sviðum samfélags,“ sagði Svandís. 

Kórunuveirufaraldurinn hefur sannarlega haft misalvarleg áhrif á ólíka hópa fólks og ólíkar atvinnugreinar. Ferðaþjónustan og menningargeirinn er dæmi um greinar sem hafa orðið fyrir hvað mestum búsifjum frá því að faraldurinn hófst í vor. 

„Mjög skiljanlegt að þau sem byggja afkomu sína á margvíslegri þjónustustarfsemi, en ekki síður á listsköpun og menningu sem nú er í uppnámi vegna íþyngjandi sóttvarnarráðstafana séu uggandi um sinn hag. Það er líka vel skiljanlegt að ungt fólk sem býr við skerta möguleika til náms og tómstunda eigi erfitt. Auðvitað saknar almenningur þess líka að geta ekki notið menningar og lista, stundað ferðalög og nýtt sér margvíslega þjónustu. Þetta er okkur öllum mikil áskorun á einn eða annan hátt,“ sagði Svandís.