Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vonbrigði að bætur verði ekki hækkaðar

19.08.2020 - 23:13
Kristján Þórður Snæbjarnarson, fyrsti varaforseti ASÍ
 Mynd: RÚV
Fyrsti varaforseti ASÍ segir það mikil vonbrigði að stjórnvöld hyggist ekki hækka atvinnuleysisbætur líkt og fjármálaráðherra sagði í Kastljósi í kvöld. Það velji það enginn að vera án vinnu.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í Kastljósinu í kvöld að til greina komi hins vegar að lengja tímabil tekjutengingar atvinnuleysisbóta. Samtök atvinnulífsins hafa verið með í gangi herferð gegn hækkun atvinnuleysisbóta þar sem því er haldið fram að hærri bætur dragi úr hvata til atvinnuleitar.

Bjarni tók undir þetta þegar hann var spurður hvers vegna hann vilji ekki hækka atvinnuleysisbætur. Hann sagðist hafa heyrt í fjölda atvinnurekenda víða um land.

„Það virðist vera mjög erfitt þrátt fyrir allt að fá fólk sem er á atvinnuleysisbótum til þess að koma til starfa,“ sagði Bjarni og kvað þau laun sem eru neðst í launastiganum ekki vera nægjanlega hvetjandi til að fá fólk til að fara af bótum.

Fólk velur sér aldrei atvinnuleysi

Kristján Þórður Snæbjarnarson, fyrsti varaforseti ASÍ segir það mikil vonbrigði að ekki standi til að hækka atvinnuleysisbætur því mikilvægt sé að tryggja fólki tekjur sem dugi til að standa undir skuldbindingum sem þeir hafi sem misst hafa vinnuna. Nauðsynlegt sé einnig að lengja tekjutengingartímabilið í minnst sex mánuði.

„Fólk velur sér aldrei að fara í atvinnuleysi,“ sagði Kristján Þór. „Það er auðvitað þannig í dag að atvinnuleysi er misjafnt eftir landshlutum. Það getur verið kostnaðarsamt fyrir fólk að flytja búferlum og sækja atvinnu þar sem atvinna býðst og oft er um að ræða atvinnu sem varir í stuttan tíma og auðvitað þarf að skoða allt þetta í því samhengi en það er klárlega þannig að fólk mun ekki vera í atvinnuleysi ef það getur fengið vinnu, það er ljóst.“