Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vímuefnanotkun, rasismi og kynbundið ofbeldi á Íslandi

Mynd: Iona Sjöfn Huntington-Williams / Aðsend

Vímuefnanotkun, rasismi og kynbundið ofbeldi á Íslandi

19.08.2020 - 09:26

Höfundar

Flóra er yfirlýst feminískt veftímarit sem hefur vakið mikla athygli undanfarna mánuði enda þykja efnistökin hispurslaus, ögrandi og öðruvísi. Þar segja ólíkir hópar oft skuggalegar reynslusögur sem endurspegla fjölþættan samfélagslegan og oft dulinn vanda. „Markmið okkar er að ná í raddir sem annars fá ekki pláss í fjölmiðlum,“ segir Elinóra Guðmundsdóttir ritstjóri.

Flóra útgáfa hefur verið gefið út á þriggja mánaða fresti og tölublöðin orðin sjö. Það nýjasta er helgað Druslugöngunni, sem er árleg mótmælaganga sem hefur það að markmiði að uppræta fordóma varðandi klæðaburð og að skila skömminni til gerenda kynferðisofbeldis. Eins og flest annað var gangan blásin af í ár vegna samkomutakmarkana en þá tók Flóra við keflinu og sá til þess að vakin væri athygli á markmiðum göngunnar með því að birta fjölbreyttar greinar um málefni sem tengjast henni. Greinarnar eru skrifaðar af einstaklingum sem tilheyra ólíkum jaðarhópum samfélagsins og segja þeir frá upplifun sinni. „Við báðum svo fólk að ganga gönguna á netinu með því að deila greinunum,“ segir Elinóra.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Druslugangan hefur verið gengin árlega frá 2011 á Íslandi en var óhefðbundin í ár

Nýjasta útgáfan er sú langstærsta og mest lesna enda segir Elinóra hina fjölmörgu aðdáendur Druslugöngunnar hafa bæst í lesendahópinn og verið duglega að fletta og deila hinum fjölbreyttu og oft persónulegu greinum sem þar birtast. Þeirra á meðal er grein skrifuð af ungri konu með fíknisjúkdóm sem notar vímuefni í æð og talar um ofbeldi sem hún og fólk, ekki síst konur sem glíma við fíknisjúkdóma, er útsett fyrir. Þar er einnig grein um smánun og blætisvæðingu feitra kvenna og nokkrar greinar fjalla á ólíkan hátt um samspil kynþáttafordóma og kynbundins ofbeldis. „Okkar markmið er að fólk segi sína sögu á eigin forsendum. Við komum ekki að efnistökum fólks og ritstýrum ekki efnislega. Við viljum að fólk geti sagt sjálft frá og talað fyrir sjálft sig.“

Elinóra segist sjálf hafa lært mikið af útgáfunni og að augu sín hafi opnast á margan hátt um málefni sem tengjast jafnrétti og reynsluheimi kvenna sem tilheyra jaðarhópum. „Við í ritstjórn erum allar hvítar og ófatlaðar cis-konur sem gerum okkur grein fyrir okkar forréttindum. Ég held það sé afskaplega hollt að taka á sem breiðustum málefnum fólks úr samfélaginu.“ Pennar blaðsins eru allir búsettir á Íslandi og lýsa því reynsluheimi samfélagsins sem ekki fær mikið pláss í fjölmiðlum. Elinóra segir útgáfuna fela í sér gagnrýni á efnistök fjölmiðla og einsleitni þess efnis sem skrifað sé fyrir konur annars vegar og karla hins vegar. „Það eru ótrúlega gamaldags stefnur innan fjölmiðla,“ segir hún. „En vonandi náum við að hrista upp í einhverjum og vekja fólk sem starfar innan fjölmiðla til umhugsunar um þetta.“

Ritstjórn blaðsins er drifin áfram af hugsjónum og keyrð áfram í sjálfboðavinnu en Elinóra segir að þau vonist til að geta í framtíðinni ráðið pistlahöfunda til starfa. „Okkur langar að geta búið til störf fyrir jaðarsett fólk. Það er markmiðið okkar, að borga fyrir fjölbreyttar raddir,“ segir Elinóra.

Þórhildur Ólafsdóttir ræddi við Elinóru Guðmundsdóttur í Samfélaginu á Rás 1.

Tengdar fréttir

Rafræn Drusluganga gefur jaðarsettum hópum orðið

Jafnréttismál

Engin Drusluganga í ár – gefa út vefrit

Jafnréttismál

Fyrirgefning fríar ekki illgjörðamenn ábyrgð