
Verðmæti Apple nær 2 billjónum Bandaríkjadala
Þetta þykir til marks um hve mjög hátæknirisar veraldarinnar hafa hagnast á kórónuveirufaraldrinum. Önnur sambærileg fyrirtæki; Amazon, Microsoft og Alphabet móðurfyrirtæki Google, teljast nú vera yfir trilljónar dollara virði.
Forskot Apple á önnur tæknifyrirtæki er þakkað mikilli sölu á vinsælum græjum og tækjabúnaði ýmiss konar, nýjum smáforritum og þjónustu sem neytendur sækja mjög í á tímum útgöngubanns og innilokunar.
Markaðssérfræðingar þakka forstjóranum Tim Cook velgengni Apple en hann tók við stjórnartaumunum við andlát Steve Jobs árið 2011. „Hann hefur ekki fundið neitt upp,“ segir Laura Martin markaðsgreinandi hjá fjárfestingabankanum Needham og Company.
Hann eigi hrós skilið að halda hugmyndum Jobs hressilega á lífi. Auk þess hafi hann stjórnað fyrirtækinu styrkri hendi. Tim Cook er auðugur maður fyrir vikið en verðmæti persónulegra eigna hans er meira en milljarður Bandaríkjadala.
Verðmæti hlutabréfa í Apple er tvöfalt meira nú en í mars síðastliðnum. Hagnaður fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi jókst um 8 af hundraði í 11,2 milljarða dala og heildartekjur um 11% upp í tæpa 60 milljarða.