Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Tveggja kinda reglan“ í gildi í göngum og réttum

19.08.2020 - 14:35
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Göngur og réttir verða með óvenjulegu sniði í haust vegna COVID-19 faraldursins. Oft er mannmargt í réttum en í ár þarf að gæta sérstaklega vel að sóttvörnum. Á Facebook-síðu Landsambands sauðfjárbænda er fólk hvatt til að muna „tveggja kinda regluna,“ það er að hafa alltaf tvo metra, sem jafngildir um tveimur kindum, sín á milli.

Gefnar hafa verið út leiðbeiningar vegna gangna og rétta og voru þær unnar á vegum Almannavarna, sóttvarnalæknis, Landsamtaka sauðfjárbænda, Bændasamtaka Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Allir eru hvattir til að halda sig í tveggja metra fjarlægð í samskiptum við fólk sem þeir deila ekki heimili með. Ef það er ekki hægt skal fólk bera andlitsgrímur.

Aðeins þeir sem hafa hlutverki að gegna mega mæta í göngur og réttir og verður því fylgt strangt eftir að ekki séu fleiri en 100 manns við réttarstörfin. Börn fædd 2005 eða síðar eru ekki talin með í 100 manna hámarkinu. Ef ekki er hægt að fara í göngur né halda réttir í samræmi við sóttvarnareglur er hægt að sækja um undanþágu og ber sveitarstjórn hvers sveitarfélags ábyrgð á því að sækja um hana. Hliðvarsla verður við aðkomu að réttum og þangað inn verður aðeins hleypt þeim sem þar eiga erindi, að því er segir í leiðbeiningunum.

Fólk er einnig hvatt til að gæta vel að hreinlæti; þvo hendur reglulega með sápu og nota handspritt og forðast að snerta augu, nef og munn. Þá er fólk hvatt til að hósta í krepptan olnboga eða í pappír þegar það finnur fyrir kvefeinkennum og forðist náið samneyti við einstaklinga með hósta og almenn kvefeinkenni. Þá er hvatt til þess að fólk sýni aðgát í umgengni við algenga snertifleti á fjölförnum stöðum, svo sem handrið, lyftuhnappa, snertiskjái, greiðsluposa og hurðahúna og að heilsa frekar með handabandi en faðmlagi.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir