
Togstreita eykst milli Ísraels og Palestínu
Sprengjur Ísraela hæfðu hernaðarlega mikilvæg skotmörk Hamas-liða en ekki hafa borist tíðindi af mannfalli.
Mikil mótmæli hafa verið í Gaza-borg þar sem kveikt hefur verið í ísraelskum fánum og myndum af Netanyahu forsætisráðherra. Reiði Palestínumanna blossaði upp vegna friðarsamkomulags Ísraels við Sameinuðu arabísku furstadæmin í síðustu viku.
Palestínumenn líta svo á að furstadæmin hafi svikið málstað þeirra með samningnum. „Palestína er ekki til sölu. Burt með þennan svika-samning,“ mátti sjá skrifað á mótmælaspjöld í Gaza-borg, bæði á ensku og arabísku.
Reuven Rivlin forseti Ísraels er þungorður í garð Hamas, segir árásir þeirra vera hryðjuverk og að ef þeir vilji stríð fái þeir það. Hamas og Ísraelsríki hafa þrisvar háð stríð frá árinu 2008.