Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Togstreita eykst milli Ísraels og Palestínu

epa08603078 Palestinians attend a protest against the agreement to establish diplomatic ties between Israel and the United Arab Emirates, after Friday prayer in the east of Gaza City, 14 August 2020. Israel and the United Arab Emirates reached an agreement to fully normalize relations.  EPA-EFE/MOHAMMED SABER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ísraelskar flugvélar vörpuðu sprengjum á Gaza-svæðið í nótt. Það var gert í kjölfar eldflaugaárásar Palestínumanna á suðurhluta Ísraels. Gagnkvæmar árásir hafa varað í um viku og Egyptar hafa reynt að miðla málum.

Sprengjur Ísraela hæfðu hernaðarlega mikilvæg skotmörk Hamas-liða en ekki hafa borist tíðindi af mannfalli.

Mikil mótmæli hafa verið í Gaza-borg þar sem kveikt hefur verið í ísraelskum fánum og myndum af Netanyahu forsætisráðherra. Reiði Palestínumanna blossaði upp vegna friðarsamkomulags Ísraels við Sameinuðu arabísku furstadæmin í síðustu viku.

Palestínumenn líta svo á að furstadæmin hafi svikið málstað þeirra með samningnum. „Palestína er ekki til sölu. Burt með þennan svika-samning,“ mátti sjá skrifað á mótmælaspjöld í Gaza-borg, bæði á ensku og arabísku.

Reuven Rivlin forseti Ísraels er þungorður í garð Hamas, segir árásir þeirra vera hryðjuverk og að ef þeir vilji stríð fái þeir það. Hamas og Ísraelsríki hafa þrisvar háð stríð frá árinu 2008.