Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrjátíu þýskir ferðamenn vissu ekki af sóttkvíarkröfu

19.08.2020 - 14:14
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri segist vita af þrjátíu þýskum ferðamönnum sem vissu ekki af kröfunni um fimm daga sóttkví sem tók gildi á miðnætti. „Þetta eru örfá tilfelli og fólk hefur þá einhvern veginn reynt að koma sér úr landi aftur,“ segir hann. Lítil aðsókn sé í gististaði sem taka á móti gestum í sóttkví.

Jórlaug Heimisdóttir verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis sagði í hádegisfréttum að hluti farþega sem komu til landsins í morgun hafi ekki vitað af nýjum reglum um tvær skimanir og sóttkví á milli.

Skarphéðinn Berg segist hafa heyrt af tveimur slíkum tilvikum í morgun. „Ég heyrði af í öðru tilfellinu þrjátíu manns og hinu tilfellinu fjölskyldu. Það voru ekki margir í þessum vélum sem komu í morgun. Það er enginn að koma til landsins til þess að vera í sóttkví í nokkra daga. Það er ekki túrismi sem neinn hefur áhuga á,“ segir Skarphéðinn Berg. Átta vélar lentu á Keflavíkurflugvelli í morgun. Jórlaug sagði að það hefðu verið um þrjátíu til fjörutíu manns í hverri. Skarphéðinn telur að það hafi að mestu leyti verið Íslendingar eða fólk búsett hér.

Á annað hundrað gististaðir hafa skráð sig á lista Ferðamálastofu yfir staði sem hýsa fólk í sóttkví. Fulltrúar þeirra eiga fund með almannavörnum eftir hádegi í dag til að fara yfir framkvæmdina. Hefur verið aðsókn í sóttkvíarhótelin? „Ekki svo okkur sé kunnugt um. Það er verið að kynna þeim hvaða kröfur eru gerðar. En við eigum ekki von á því að það verði mikil viðskipti sem komi út úr því,“ segir Skarphéðinn.