Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Sekt fyrir brot á grímuskyldu allt að hálf milljón

Mynd með færslu
Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari. Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ríkissaksóknari hefur gefið út ný sektarfyrirmæli vegna COVID-19. Samkvæmt þeim er hægt að leggja sekt á forsvarsmenn starfsemi og skipuleggjendur samkoma ef brotið er gegn skyldu til að tryggja tveggja metra reglu milli einstaklinga sem ekki deila heimili. Sektir vegna fyrsta brots verða á bilinu 100.000 til 500.000 krónur og fer upphæðin eftir alvarleika brotsins.

Samkvæmt nýju fyrirmælunum verður lögreglu einnig heimilt að sekta forsvarsmenn starfsemi þar sem reglur um notkun andlitsgríma eru brotnar. Þar fer upphæðin einnig eftir alvarleika brots og verður 100.000 til 500.000 krónur. Einstaklingar sem brjóta reglur um grímunotkun geta búist við 10.000 til 100.000 króna sekt. 

Nýju sektarfyrirmælin eru viðbót við fyrirmæli Ríkislögreglustjóra síðan í mars. Enn eru í gildi reglur um sektir síðan þá, um brot á reglum um einangrun og sóttkví. Sekt fyrir að brjóta þær skyldur að fara í og vera í sóttkví, og virða skyldur í sóttkví, fer eftir alvarleika brots og getur verið 50.000 til 250.000 krónur.

Fyrir brot á reglum um einangrun eru sektir 150.000 til 500.000 krónur. Sektarheimild um einangrun nær aðeins til fyrsta brots.

Séu framin brot á fjöldatakmörkunum getur sekt einstaklings sem sækir samkomu orðið 50.000 krónur. Sektir skipuleggjenda samkomu eða forsvarsmanna fyrirtækja sem brjóta þessa reglu eru á bilinu 250.000 til 500.000 krónur, miðað við fyrsta brot.