Segir hlutafjárútboðið ekki úrslitastund Icelandair

19.08.2020 - 20:45
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair
 Mynd: RÚV/Guðmundur Bergkvist
Samningar við kröfuhafa Icelandair lækka skuldbindingar félagsins um 61 milljarð króna. Stór hluti þeirra samninga er hins vegar háður því að takist að afla nýs hlutafjár. Forstjóri Icelandair vill ekki lýsa hlutafjárútboðinu sem úrslitastund félagsins.

Icelandair sendi frá sér fjárfestakynningu í gærkvöld þar sem farið er yfir stöðu félagsins og framtíðaráætlanir. Þar kemur fram að hlutafjárútboð félagsins hefjist að morgni 14. september og ljúki síðdegis 15. september. Áætlað er að safna 20 milljörðum króna í nýju hlutafé og jafnvel allt að 23 milljörðum verði eftirspurn mikil. Fram hefur komið að ríkið ábyrgist 90% af lánalínu upp á sextán og hálfan milljarð króna og Íslandsbanki og Landsbankinn þau tíu prósent sem upp á vantar. Í kynningunni segir að nýlegir samningar við flugmenn, flugfreyjur og flugþjóna spari félaginu þrjá og hálfan milljarð króna, miðað við venjulegt rekstrarár og að samningar við lánardrottna, birgja og fleiri, sem og bætur frá Boeing vegna MAX vélanna og afsláttur vegna þeirra véla sem eftir eiga að koma, lækki skuldbindingar félagsins um 61 milljarð. Boeing-samningurinn er næstum 60 prósent af þeirri fjárhæð.  Ábyrgð ríkisins og samningar við lánardrottna og fleiri eru háð því að það takist að afla þess hlutafjár sem stefnt er að, en samkomulagið við Boeing er þar undanskilið. 

Ef það tekst ekki, hvað þá?
„Þá erum við bara komin í aðra stöðu og þurfum að skoða málið upp á nýtt.“
Er þetta hlutafjárútboð úrslitastund Icelandair?
„Ég myndi nú kannski ekki segja það, en það er mjög mikilvægt að okkur takist að safna þessu hlutafé eins og við leggjum upp með og það er lokahnykkurinn á þessari vegferð sem við höfum verið í, þessu stóra verkefni sem við höfum verið í,“  segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair.

Fram kemur í kynningunni að félagið sé vel í stakk búið til að bregðast skjótt við þegar kórónuveirufaraldurinn hjaðnar. Miklar takmarkanir tóku gildi á landamærunum á miðnætti, en að sögn Boga er gert ráð fyrir takmörkunum í áætlunum félagsins.

„Ekki nákvæmlega þessum reglum en að það yrðu miklar ferðatakmarkanir og lítil eftirspurn, þetta myndi ganga í sveiflum og við ætlum að vera tilbúin að nýta tækifærin þegar þau kæmu og höfum gert það. En uppleggið var að við vorum að búa okkur undir mjög litla framleiðslu og litla eftirspurn allt fram á næsta vor.“
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi