Segir ekkert mega út af bera hjá Icelandair

Samningar við kröfuhafa Icelandair lækka skuldbindingar félagsins um 61 milljarð króna. Stór hluti þeirra samninga er hins vegar háður því að takist að afla nýs hlutafjár. Snorri Jakobsson, hagfræðingur hjá greiningafyrirtækinu Jakobsson Capital, segir ekkert mega út af bera hjá flugfélaginu.

Icelandair sendi frá sér fjárfestakynningu í gærkvöld þar sem farið er yfir stöðu félagsins og framtíðaráætlanir. Þar kemur fram að hlutafjárútboð félagsins hefjist að morgni 14. september og ljúki síðdegis 15. september.

Áætlað er að safna 20 milljörðum króna í nýju hlutafé og jafnvel allt að 23 milljörðum verði eftirspurn mikil. Fram hefur komið að ríkið ábyrgist 90% af lánalínu upp á 16,5 og milljarð króna og Íslandsbanki og Landsbankinn þau 10% sem upp á vantar.

Tekjuáætlun félagsins, sem geri ráð fyrir að áhrifa COVID-19 gæti í um fjögur ár, er að mati Snorra sambærileg því sem greiningarfyrirtækið gerir ráð fyrir. „Það er nokkuð í línu við það sem má búast við,“ segir Snorri.

Allt velti hins vegar á vilja lífeyrissjóða og einstaklinga til að taka þátt í hlutafjárútboðinu, því gangi útboðið ekki eftir verði lausafjárstaða Icelandair mjög þröng.

Stærsti óvissuþátturinn að mati Snorra er hins vegar íslenska krónan. „Það er stærsti óvissuþátturinn í rekstri flugfélaga hér á landi,“ sagði hann.

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi