Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sádar ekki tilbúnir í diplómatísk tengsl við Ísraela

epa08612660 German Foreign Minister Heiko Maas (R) and Saudi Foreign Minister Prince Faisal bin Farhan Al-Saud attend a joint press conference in Berlin, Germany, 19 August 2020.  EPA-EFE/JOHN MACDOUGALL / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AFP POOL
Yfirvöld í Sádí-Arabíu ætla sér ekki að koma á diplómatískum tengslum við Ísrael fyrr en stjórnvöld þar hafa friðmælst við Palestínumenn.

Faisal bin Farhan prins, utanríkisráðherra Sádí-Arabíu segir að friður milli Ísraels og Palestínu verði að byggja á alþjóðlegum samningum. Hann segir að verði af því opnist margir möguleikar í samskiptum ríkjanna.

Samningur Ísraels og Sameinuðu arabísku furstadæmanna hefur kveikt vonir um að fleiri slíkir samningar líti dagsins ljós. Sögulegt mikilvægi hans hefur þó verið dregið í efa, einkum vegna þess að ríkin eiga ekki í stríði og hafa haft mikil samskipti bak við tjöldin.

Innlimun skaðleg tveggja ríkja hugmyndinni

Faisal bin Farhan lét framangreind orð falla á blaðamannafundi ásamt Heiko Maas utanríkisráðherra Þýskalands í Berlín í dag. Þar ítrekaði hann það álit ríkisstjórnar sinnar að innlimun landnemasvæða Ísraela á Vesturbakkanum væri ólögmæt og skaðleg tveggja ríkja hugmyndinni.

Með samningnum við furstadæmin hétu ísraelsk yfirvöld að fresta innlimuninni en Netanyahu forsætisráðherra kveðst ekki hætt við þau áform til lengri tíma litið. Palestínumönnum finnst Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa svikið sig með samningnum.

Langsótt að Sádar friðmælist við Ísraela

Aziz Alghashian lektor við háskólann í Essex segir langsótt að Sádar friðmælist við Ísraela. Hagsmunir þeirra sem leiðtoga múslimaheimsins yrðu helst tryggðir með lausn Palestínudeilunnar sem byggði á friðaráætlun Arababandalagsins.

Samningur Ísraela og Sameinuðu arabísku furstadæmanna er sá þriðji sem Ísrael gerir við Arabaríki frá stofnun árið 1948.

Árið 1979 gerðu Ísraelar og Egyptar sögulegan samning eftir áratuga ófrið og 1994 var undirritaður samningur milli Jórdaníu og Ísraels. Hann batt endi á 46 ára stríðsástand þeirra í milli.