Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Lífið á tímum COVID rætt á samráðsfundi á morgun

19.08.2020 - 14:59
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Samráðsfundur stjórnvalda um lífið næstu misseri, nú þegar heimsfaraldur kórónuveiru geisar, verður haldinn í fyrramálið. Fundurinn ber yfirskriftina „Að lifa með veirunni“ en efnt var til hans af heilbrigðisráðherra, í samvinnu við forsætis- og dómsmálaráðuneytið, samkvæmt tillögu sóttvarnarlæknis.

Á vef Stjórnarráðsins segir að markmið fundarins sé að móta áherslur og leiðarljós sem geti nýst í áframhaldandi vinnu við mótun aðgerða vegna Covid-19 á næstu misserum. 

Beint verður sjónum að sex sviðum; heilsu og heilbrigðisþjónustu, menningu íþróttum og dægradvöl, menntun, atvinnulífi, almannaöryggi og velferð.

Á fundinum verður fengist við nokkrar lykilspurningar, svo sem „Hverjar eru helstu áskoranir á viðkomandi sviði til að halda úti starfsemi miðað við þær sóttvarnarreglur sem nú gilda?“, „Ef hægt væri að slaka eitthvað á gildandi sóttvarnareglum, hvaða tilslakanir myndu koma að mestu gagni?“ og „Hvaða hópar líða mest fyrir skerta starfsemi á viðkomandi sviði?“

Fundinum verður streymt á vef Stjórnarráðsins, vefnum ruv.is og á Rúv 2. Hann fer fram á Hotel Hilton Nordica frá níu í fyrramálið til klukkan eitt. Dagskráin er sem hér segir:

8:30 Skráning og morgunkaffi

9:00 Opnun

9:10 Ávarp heilbrigðisráðherra

9:20 Örerindi. Bergur Ebbi Benediktsson fundarstjóri tekur til máls. Guðrún Johnsen hagfræðingur fjallar um hagræn áhrif Covid. Þá flytur Henry Alexander Henryson heimspekingur erindið „Að lifa heimspekilega með veirunni“. Því næst fjallar Steinunn Gestsdóttir aðstoðarrektor HÍ um velferð og menntun barna og ungmenna á tímum Covid og að lokum ræðir Una Hildardóttir forseti LUF um framtíðina og Covid. 

10:30 Vinnuhópar og samantekt borðstjóra

12:30 Pallborð. Svandís Svavarsdóttir, Alma D. Möller, Þórólfur Guðnason og Víðir Reynisson taka þátt í pallborðsumræðum. 

12:50 Fundi lýkur

Fréttin hefur verið leiðrétt.