Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

KR-ingar í sóttkví eftir stórtap fyrir Celtic

Mynd með færslu
 Mynd: Celtic

KR-ingar í sóttkví eftir stórtap fyrir Celtic

19.08.2020 - 04:42
Ekki tókst að koma karlaliði KR í knattspyrnu til landsins fyrir miðnætti í gærkvöld eins og að var stefnt og því þarf liðið að öllum líkindum að verja næstu fimm sólarhringum í sóttkví. Þetta þýðir að fresta þarf leik KR og Vals, sem ætti að leika á laugardaginn kemur.

Þriðjudagurinn 18. ágúst 2020 var ekki góður dagur fyrir meistaraflokk karla hjá hinu fornfræga Knattspyrnufélagi Reykjavíkur. Í gærkvöld töpuðu Íslandsmeistararnir illa gegn Skotlandsmeisturum Celtic, þegar liðin mættust á Celtic Park í Glasgow. Þar skoruðu heimamenn sex mörk en KR-ingar ekkert. Til að bæta gráu ofan á svart tókst ekki  að fljúga liðinu til Íslands áður en hertar sóttvarnarreglur gengu í gildi á miðnætti, eins og ætlunin var.

Lentu hálfeitt og þurfa því að fara í sóttkví

Vélin sem flutti þá heim lenti rétt rúmlega hálfeitt í nótt, sem þýðir að liðið og fylgdalið þess þurfa að fara í fjögurra til sex daga sóttkví og að líklega þarf að fresta fyrirhuguðum leik KR og Vals á laugardag.

Vangaveltur hafa verið uppi um hvort KR-ingar geti fengið undanþágu frá hinum hertu reglum, þar sem bæði lið og fylgdarlið voru í vernduðu umhverfi alla ferðina. Flogið var með leiguflugi, liðið hafði heila hæð á hótelinu út af fyrir sig og yfirgaf hana ekki nema rétt til að fara á völlinn, og utan vallar áttu liðsmenn engin samskipti við aðra en ferðafélaga sína. Það sem mælir gegn slíkri undanþágu er þó óneitanlega sú staðreynd að þeir voru í giska miklu návígi við mótherja sína á vellinum á meðan á leik stóð.

Sóttvarnareglurnar nýju setja fleiri strik í reikning efstu deildar Íslandsmótsins í karlafótbolta, því FH, Víkingur og Breiðablik eiga öll eftir að fara utan til Evrópuforkeppni, tvö þeirra strax í næstu viku. 

Uppfært kl. 08:18:

Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar KR, segist í samtali við RÚV ekki vita annað en að karlalið félagsins þurfi að hlíta nýjum sóttvarnareglum sem tóku gildi á landamærunum á miðnætti.  Þær kveða á um að allir þurfa að fara í sýnatöku á landamærunum,  4 til 5 daga sóttkví og svo aðra sýnatöku.

Hann segir að ekki hafi fundist lausn á þeim vanda sem íslensku liðin, sem taka þátt í Evrópukeppnnunum, eru í. 

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Celtic skoraði sex gegn KR

Fótbolti

KR-ingar í kapphlaupi við tímann