Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Icelandair spáir mögulegum arftaka erfiðri fæðingu

Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Atli Magnússon - RÚV
Það mun taka nýtt flugfélag mörg ár að fylla í það skarð sem Icelandair skilur eftir sig og flug til og frá landinu yrði í millitíðinni háð þörfum erlendra flugfélaga.

Þetta segir í sviðsmynd sem Icelandair setur upp í fjárfestakynningu fyrir fyrirhugað hlutafjárútboð félagsins, en þar lýsir félagið þeirri mynd sem blasir við ef svo fer að Icelandair fari á hausinn.

Erlend flugfélög tækju yfir

Hvað flug til og frá landinu segir að ósamstæður hópur erlendra flugfélaga muni taka yfir flug til og frá landinu sem yrði sniðið að þeirra þörfum en ekki íslensks samfélag. SAS, Norwegian og Finnair muni taka yfir flug til og frá Norðurlöndum, Air France og KLM til og frá París og Amsterdam, Lufthansa til Þýskalands, British Airways, Easyjet og Wizzair til Bretlands og bandarísk og kanadísk flugfélög myndu sjá um Ameríkumarkað.

Áfangastöðum fækkaði

Þá munu umfsvifin á Keflavíkurflugvelli dragast verulega saman þar sem flugvöllurinn yrði ekki lengur miðstöð tengiflugs yfir Atlantshafið. Sýnileiki Íslands sem ferðamannalands myndi minnka og áfangastöðum til og frá landinu fækka þar sem margir þeirra séu ósjálfbærir án tengiflugs. Þannig mætti búast við því að áfangastaðir í Ameríku yrðu aðeins tveir til sex í stað 17 eins og þeir voru í fyrra.

Erfið fæðing arftakans

Þó sé ekki útilokað að í stað Icelandair kæmi nýtt flugfélag sem myndi leggja áherslu á tengiflug en Icelandair telur að það tæki mörg ár að ná þeirri stöðu sem Icelandair er í núna. Þannig þyrfti nýtt flugfélag að hafa starfað í allt að hálft ár þar til hægt sé að fljúga fyrsta flugið til Ameríku. Vöxtur þess flugfélags yrði hægur vegna þess hversu flókinn slíkur rekstur er auk þess sem það gæti tekið fimm til tíu ár að útvega lendingarleyfi á helstu flugvöllum.