Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Íbúar hvattir til að skoða nýjar tillögur um Breiðholt

19.08.2020 - 22:49
Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Í Breiðholti er nú verið að kynna vinnutillögur fyrir hverfisskipulag Seljahverfis, Efra- og Neðra Breiðholts. Óskað er eftir ábendingum og athugasemdum frá íbúum.

Mestur áhugi á nánasta umhverfi

Þessa vikuna eru tillögurnar kynntar í Gerðubergi og fulltrúar skipulagsyfirvalda svara þar spurningum. Í næstu viku færist kynningin í göngugötuna í Mjóddinni. 

„Fólk er náttúrulega mest að hugsa um sitt nánasta nágrenni, hvað getur það gert á sínum lóðum og hvað er að hafa áhrif á þeirra húsnæði og heimili og svona,“ segir Ævar Harðarson deildarstjóri Hverfisskipulags Rvíkur.

Bæta á hverfiskjarna og hafa snjó allt árið í vetrargarði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV

Ítarlegar upplýsingar má skoða á hvsk.is þar sem hægt er að sjá hugmyndir um náttúrusvæði, byggingasvæði, skiptingu einbýla í tvíbýli, ofanábyggingar á blokkir, matjurtagarða og svo framvegis. 

„Við erum að styrkja hverfiskjarnana sem eitt sinn voru blómlegir og líflegir, hafa síðan dalað með tilkomu Smáralindar og Kringlu og allt það. Og svo erum við með vetrargarð. Það er sem sagt verið að byggja upp skíðasvæðið efst í Seljahverfinu þ.a. það verði hægt að stunda vetraríþróttir allan ársins hring með snjóframleiðslu og þurrskíðum og eitthvað svona skemmtilegt.“

Fleiri búa í Breiðholti en á Akureyri og í Reykjanesbæ

Breiðholtið er langfjölmennasta hverfið í Reykjavík með rúmlega 22 þúsund íbúa. Þar búa um þrjú þúsund fleiri en í Reykjanesbæ þar sem íbúar eru 19500 og á Akureyri þar sem þeir eru 19 þúsund. 

„Við viljum endilega allar raddir hvort sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar af því að við erum að leita að því hvernig við getum gert þessar tillögur að hverfisskipulagi í Breiðholti betri.“

Í næstu viku verður líka boðið upp á þrjár göngur eina í hverju hverfi. Og 31. ágúst verður íbúafundur sem líka verður streymt. Þá verðar tillögurnar endurbættar, lagðar fram og þá verður gefinn kostur á formlegum athugasemdum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Ævar Harðarson.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV