Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Húsrannsókn hjá frönskum ráðherra

Oliver Dussopt undirráðherra í ríkisstjórn Macrons Frakklandsforseta sætti húsrannsókn vegna gjafar sem hann fékk sem bæjarstjóri Annonay árið 2017.
 Mynd: Ministre de l'Économie, France - Ministre de l'Économie
Húsleit var gerð í dag á heimili Olivers Dussopt undirráðherra í efnahagsráðuneyti Frakklands. Nokkrir starfsmenn og ráðherrar í ríkisstjórn Emmanuels Macron forseta hafa mátt sæta rannsóknum af ýmsu tagi.

Fulltrúar efnahags- og skattalagabrotadeildar saksóknara voru sendir á heimili ráðherrans í leit að gögnum sem tengjast tveimur litógrafíum sem Dussopt fékk að gjöf árið 2017.  

Hann, sem bæjarstjóri Annonay í Suður-Frakklandi, fékk myndirnar að gjöf frá vatnshreinsifyrirtæki sem átti í samningaviðræðum við bæjarstjórnina. Grunur er um að gjöfin hafi auðveldað fyrirtækinu að ná samningnum.  

Dussopt segir í samtali við AFP fréttastofuna að eðlilegt sé að rannsaka málið og að sannað verði að hann braut ekkert af sér. Sömuleiðis kveðst hann hafa skilað myndunum fyrir nokkrum vikum því hann vildi segja skilið við þetta mál.  

Í Frakklandi ber kjörnum fulltrúum að gera grein fyrir öllum gjöfum sem eru meira en 150 evra virði, jafngildi 24 þúsunda króna. Dussopt gerði það ekki því hann kveðst ekki hafa haft hugmynd um verðmæti myndanna.  

Starfsmannastjóri forsetans, Alexis Kohler, sætti rannsókn vegna hagsmunaárekstra gagnvart svissnesk-ítalska skipafélaginu MSC. Richard Ferrand steig til hliðar sem húsnæðisráðherra vegna rannsóknar á húsnæðisviðskiptum hans. Hann er nú forseti franska þingsins.

Nú er verið að rannsaka ásakanir á hendur Gerald Darmanin, nýskipuðum innanríkisráðherra, vegna meintrar nauðgunar.