Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hræringar í flugvélaflota Icelandair á næstu árum

19.08.2020 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Icelandair ætlar að byggja leiðakerfi sitt á næstu árum að hluta á Boeing 737 MAX vélum sem félagið vonast að fái að fljúga í árslok. Félagið hyggst bæta 16 nýjum vélum við í flotann eftir fjögur ár en óvíst er hvaða tegund verður þá fyrir valinu.

Vikið er að flugvélaflota Icelandair í fjárfestakynningu Icelandair sem birt var í gærkvöldi en í henni er mikið traust lagt á nýju Boeing MAX vélar félagsins.

Max vélarnar eru mun hagkvæmari en aðrar vélar í flota Icelandair, eyða 27 prósent minna eldsneyti og krefjst minna viðhalds. Getur þær flogið til 85 prósent áfangastaða félagsins. En, gallinn er að þær mega ekki fljúga. Allar MAX vélar hafa verið kyrrsettar eftir tvö mannskæð flugslys en vonir Icelandair standa til þess að þær hefji sig til flugs á ný í árslok.

Til stóð að Icelandair keypti 16 MAX vélar frá Boeing en samningar hafa tekist við bandaríska flugvélaframleiðandann um að þær verði aðeins tólf. Sex eru þegar komnar til Icelandair og hinar sex bætast við á næsta og þarnæsta ári.

757 vélunum fer fækkandi

Alls á Icelandair 32 vélar í dag, þar af 22 Boeing 757 vélar. Áætlanir gera hins vegar ráð fyrir að 757 vélunum fækki ört á næstu árum og að þær verði aðeins 9 eftir í flotanum árið 2025. Verða þær ýmist seldar, breytt í fraktflugvélar eða seldar í varahluti. Eins og áður sagði bætast sex nýjar MAX vélar í flotann árin 2021 og 2022 en árið 2024 er gert ráð fyrir að 5 nýjar vélar verði fengnar og 6 vélar árið eftir.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hverrar tegundar þær flugvélar verða, en í fjárfestakynningunni segir að þar komi Boeing 737 eða Airbus 320 til greina. Verði síðarnefnda tegundin fyrir valinu markar það tímamót því Icelandair hefur átt í áratuga löngu samstarfi við Boeing.

Fréttin var uppfærð klukkan 18:25.