Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hægt að koma í veg fyrir heimsfaraldra eins og COVID-19

19.08.2020 - 15:08
Mynd: Geir Ólafsson / Geir Ólafsson
Hægt er að koma í veg fyrir heimsfaraldra eins og Covid-19 ef þjóðir heims kæmu sér saman um að draga úr eyðingu regnskóga og viðskiptum með villt dýr. Það kostar 22 milljarða dollara á ári. Þetta segir hópur alþjóðlegra vísindamanna sem birt hafa grein í vísindatímaritinu Science. Rætt er við einn úr hópnum dr. Aaron Bernstein, í Speglinum

Loftslagsbreytingar og Covid-19

Dr. Aaron Bernstein, er barnalæknir og sérfræðingur í tengslum mengunar og sjúkdóma. Hann stýrir miðstöð loftslags-, heilbrigðis- og umhverfismála við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Hann er þekktur fyrir tilraunir sínar til að vekja athygli á áhrifum loftslagsbreytinga á heilsu manna.  

Greinin, „Ecology and economics for pandemic prevention“ var birt í Science í lok júlí.  Þar segir Bernstein, ásamt félögum sínum, sem mynda alþjóðlegan hóp vísindamanna, hagfræðinga, lækna og líffræðinga, frá hugmyndum sínum um hvernig koma má í veg fyrir heimsfaraldur eins og nú geisar.

Loftslagsbreytingar falla í skuggann fyrir COVID-19 

Bernstein segir að þrátt fyrir að umfjöllun um loftslagsbreytingar hafi fallið í skuggann fyrir Covid-19 faraldrinum sé erfitt að líta framhjá því að þetta tvennt tengist. Sýnt hafi verið fram á í auknum mæli að þeir sem anda að sér menguðu lofti í nokkurn tíma verða veikari en þeir sem ekki búa við slíkar aðstæður. „Við vitum að heimsfaraldurinn hefur bitnað harðar á samfélagi svartra í Bandaríkjunum og á fátæku fólki líka,“ segir hann. 

Sýkingin verður þar sem regnskógum er eytt

Ekkert bendi þó til þess að loftslagsbreytingar eða loftmengun hafa komið faraldrinum af stað. Hann hafi mjög líklega borist frá leðurblökum í menn einhvers staðar í KÍna. 

„Við höfum áhuga á að reyna að koma í veg fyrir að faraldrar eins og Covid-19 eigi sér stað aftur.“  
 
Vitað sé hvernig vírusar og aðrar sýkingar berast frá dýrum yfir í menn. Eyðing skóganna skipti miklu máli því mjög margar sýkingar hafi orðið þar. Þegar skógum sé eytt setjist fólk að á svæðinu og komist þá í snertingu við villt dýr. Sama eigi sér stað þegar fólk fari inn regnskógana til að veiða dýr, hvort sem það er til matar, lyfjagerðar, fyrir gæludýramarkaðinn eða annað, þá sé hætta á að sýkingar berist í menn.  

Tuttugu til þrjátíu milljarðar dollarar á ári

„Við komumst að þeirri niðurstöðu að ef hægt væri að draga úr eyðingu skóganna um helming á þeim stöðum þar sem líklegast er að sýkingar eigi sér stað og ef hægt er að stjórna betur veiðum á villtum dýrum og viðskipti með þau gæti það kostað 20 til 30 milljarða dollara á ári. Það hljómar eins og miklir peningar þangað til þú gerir þér grein fyrir því að COVID-19 hefur nú þegar kostað okkur meiri en 10.000 milljarða dollara.“

Þannig ef allar þjóðir kæmu sér saman um að eyða á milli 20 til 30 milljörðum dollara á ári í áratug væri það einungis lítið brot af þeim kostnaði sem verður af einum vírus eins og Covid-19.   

Ríkisstjórnir þurfa að ná samkomulagi

En hvaða likur eru á því að þjóðir heims komi sér saman um að setja fjármagn í það að koma í veg fyrir eyðingu skóga og stýra betur viðskiptum með villt dýr?

Bernstein segir að nú þegar séu dæmi þess í heiminum að þjóðir komi sér saman um að setja reglur um skógana. Það hafi, til dæmis, verið gert í Brasilíu áður en núverandi ríkisstjórn tók við. Þá hafi það verið á þeim forsendum að það drægi úr losun gróðurhúsalofttegunda en ekki vegna þess að eyðing skóganna væri hættuleg heilsu manna.   

Finna megi fleiri dæmi þar sem þjóðríki hafi tekið sig saman til að vernda skóga. Það sé þó ótvírætt að stjórnarhættir geta skipt sköpum, það skipti máli hverjir séu við stjórnvölinn

Eyðing skóganna hefur áhrif á alla um heim allan 

„Ég á heima í Boston og þar er enginn regnskógur - samt sem áður skiptir verndun regnskóganna gríðarlegu máli svo hægt sé að koma í veg fyrir að faraldrar eins og Covid-19 geisi í Boston,“ segir hann.  

En hvað með Kína og markaðina þar sem selja villt dýr. Er líklegt að kínverjar samþykki hertar reglur? 
„Kína er áhugavert. Þar í landi hafa reglur um verslun með villt dýr þegar verið hertar. Við vitum að COVID-19 dreifðist hratt frá mörkuðum þar en ekki er ljóst hvort veiran hafi átt upptök sín þar. En það er engin spurning að við þurfum að vera mun klárari en við erum núna þegar viðskipti með villt dýr og markaðir eins og þessir eru annars vegar.“

Vonar að stjórnvöld taki við sér

Bernstein er nokkuð bjartsýnn á að stjórnvöld í heiminum sýni þessu áhuga og segir að annaðhvort kjósi menn að koma í veg fyrir eyðingu skóga eða að alþjóðahagkerfið sé í hættu og heilsa alls mannkynsins sömuleiðis. „Við bendum á þetta í greininni okkar,“ segir hann.
Hann gerir sér vonir um að greinin verði til þess að vekja athygli stjórnvalda um heim allan á að allir séu í hættu ef ekki tekst að vernda regnskógana. 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV