Fullt hús og hreint mark að móti hálfnuðu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Fullt hús og hreint mark að móti hálfnuðu

19.08.2020 - 20:25
Breiðablik vann öruggan 7-0 sigur á Þór/KA í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í kvöld. Liðið á enn eftir að fá á sig mark og er með fullt hús stiga eftir níu leiki.

Breiðablik hafði unnið alla átta leiki sína fram að þeim við Norðankonur í kvöld og átti enn eftir að fá á sig mark í deildinni. Aldrei áður hafði lið leikið fyrstu níu leiki tímabils í efstu deild kvenna án þess að fá á sig mark og gátu Blikakonur því sett met í kvöld.

Afmælisbarn dagsins, Kristín Dís Árnadóttir, hefur verið burðarás í varnarleik Breiðabliks í sumar en hún var mætt á hinn enda vallarsins þegar hún kom liðinu í forystu eftir hornspyrnu Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttur strax á fjórðu mínútu leiksins. Áslaug bætti svo öðru markinu við rúmum tíu mínútum síðar með fallegu marki þar sem hún lék á þrjá varnarmenn Þórs/KA áður en hún negldi boltann í markið.

Áslaug bætti öðru marki sínu við sjö mínútum fyrir leikhlé þegar hornspyrna hennar rataði beint í mark. 3-0 stóð því fyrir Breiðablik í hléi.
Rúmar sex mínútur voru liðnar af síðari hálfleik þegar Breiðablik bætti fjórða markinu við. Þar var að verki Agla María Albertsdóttir sem lagði boltann í markið úr markteig eftir fyrirgjöf Sveindísar Jane Jónsdóttur. Aðeins þremur mínútum síðar átti Berglind Björg Þorvaldsdóttir skot af löngu færi sem fór af varnarmanni og í netið, staðan því orðin 5-0.

Sveindís Jane skoraði sjötta mark Breiðabliks í leiknum eftir hornspyrnu á 74. mínútu og Rakel Hönnudóttir skoraði fjórða mark Breiðabliks eftir hornspyrnu í leiknum er hún innsiglaði 7-0 sigur liðsins fimm mínútum síðar.

Sigur Breiðabliks þýðir að liðið er enn ósigrað á toppi deildarinnar og á enn eftir að fá á sig mark. Þar með bætir liðið met KR frá 1997 þegar Vesturbæjarliðið lék fyrstu átta leiki Íslandsmótsins án þess að fá á sig mark.

Þegar mótið er hálfnað er Breiðablik á toppi deildarinnar með fullt hús stiga, 27 stig, fimm stigum á undan ríkjandi Íslandsmeisturum Vals. Breiðablik er þá eftir sigur kvöldsins með markatöluna 42-0. Þór/KA er í fimmta sæti deildarinnar með ellefu stig.

Jafnt í Árbæ

Í Árbæ tók lið Fylkis á móti ÍBV en Árbæingar voru fyrir leikinn í þriðja sæti deildarinnar, þremur stigum á undan ÍBV sem var sæti neðar. Eyjakonur hafa verið á mikilli siglingu undanfarið og hófu leikinn af krafti er lettneska landsliðskonan Olga Sevcova kom liðinu yfir á fimmtu mínútu.

Gestirnir frá Vestmannaeyjum leiddu 1-0 í hálfleik en eftir stundarfjórðungsleik í síðari hálfleik jafnaði Þórdís Elva Ágústsdóttir metin fyrir Fylki með góðu skoti eftir fyrirgjöf Huldu Hrundar Arnarsdóttur.
Þar við sat og 1-1 jafntefli niðurstaðan. Fylkir er því með 16 stig í þriðja sæti deildarinnar, sex stigum á eftir Val í öðru sætinu en ÍBV er með 13 stig í því fjórða.