Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Framtíð Icelandair gæti ráðist í útboðinu

Mynd með færslu
 Mynd: Bogi Ágústsson - RÚV
Samningar sem Icelandair hefur gert við kröfuhafa, birgja og fleiri lækka skuldbindingar félagsins um 61 milljarð króna. Þeir eru þó allir háðir því að takist að safna tilskilinni upphæð í fyrirhuguðu hlutafjárútboði.

Þetta kemur fram í fjárfestakynningu sem Icelandair birti á vef Kauphallarinnar í gærkvöld og er gefin út í tengslum við fyrirhugað hlutafjárútboð. Kynningunni er ætlað að vekja áhuga fjárfesta á félaginu og má greina þrenn megin skilaboð – í fyrsta lagi að rekstrarsaga Icelandair sýni að viðskiptalíkanið sé arðbært, að samningar við Boeing, kröfuhafa og flugstéttir tryggi rekstrargrundvöll félagsins og að félagið sé í stakk búið að fara hratt aftur af stað þegar flug tekur við sér á ný eftir Covid-19.

Mikið undir í útboðinu

Hlutafjárútboðið sem mun ráða miklu um framtíð Icelandair. Þannig er 16,5 milljarða ríkisábyrgð á lánalínu til Icelandair háð því að félagið nái markmiðum sínum um öflun hlutafjár. Ríkið ábyrgist 90 prósent lánalínunnar en Íslandsbanki og Landsbankinn, sem sjá um fjármögnun, 10 prósent. Að sama skapi kemur fram í kynningunni að samningar við kröfuhafa og birgja eru einnig háðir vel heppnuðu hlutafjárútboði og ríkisábyrgð á lánalínu. Félagið stefnir á að safna 20 milljörðum króna, sem gæti hækkað upp í 23 milljarða ef eftirspurn verður mikil.

Útboðið hefst að morgni 14. september og lýkur síðdegis 15. september.

Treysta á endurkomu MAX-vélanna

MAX-vélarnar frá Boeing skipa stóran sess í kynningunni. Icelandair pantaði 16 slíkar vélar og hefur fengið sex afhentar sem  hafa verið kyrrsettar síðan í mars í fyrra . Félagið gerir ráð fyrir að þær byrji að fljúga í árslok þótt endurkomu þeirra hafi ítrekað verið frestað. Það skiptir miklu fyrir Icelandair þar sem nýju vélarnar nota 27 prósent minna eldsneyti en eldri vélar sem sumar eru komnar til ára sinna.

En líklega eru það vélarnar sem Icelandair er ekki búið að fá sem skipta meiru máli. Samkomulag við Boeing felur í sér að Icelandair fær 12 MAX vélar í stað 16 áður. Afhending þeirra sex véla sem koma frestast, þrjár koma á næsta ári og þrjár árið 2022. Icelandair fær afslátt af þeim og bætur vegna kyrrsetningarinnar sem að mestu verða greiddar út á öðrum ársfjórðungi 2021. Við þetta lækka skuldbindingar Icelandair um 260 milljónir dollara, eða ríflega 30 milljarða króna.

Nýir kjarasamningar spara milljarða

Alls koma samningar sem gerðir hafa verið við kröfuhafa, birgja og fleiri á undanförnum misserum til með að lækka skuldbindingar Icelandair um 450 milljónir dollara, eða um 61 milljarð króna. Samningurinn við Boeing stendur undir nærri 60 prósent af þeirri lækkun.

Nýundirritaðir kjarasamningar við flugmenn og flugfreyjur eru sagðir spara félaginu 3 og hálfan milljarð á venjulegu rekstrarári. Stór hluti felst í meiri nýtingu á vinnuaflinu, þannig geta flugmenn flogið 22 prósent fleiri flugstundir nú en undir gömlu samningunum og flugfreyjur 15 prósentum lengur.

Ná fyrri hæðum 2024

Í kynningunni segir að félagið sé vel í stakk búið til að bregðast hratt við þegar flug tekur við sér á ný eftir covid-19. Það mun þó taka tíma og gerir Icelandair ráð fyrir að flug taki ekki við sér sér fyrr en um mitt næsta ár. Verður það ekki fyrr en 2024 sem áætlað er að fjöldi flugfarþega verði sá sami og hann var þegar faraldurinn skall á. Engu að síður hyggst félagið byrja að skila hagnaði fyrr, eða árið 2022.