Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Framhaldsskólanemar ósáttir við viðbrögð stjórnvalda

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Endurskoða þyrfti gjaldtöku fyrir fjarnám í framhaldskólum þannig að framhaldsskólanemendur í áhættuhópi vegna kórónuveirufaraldursins, eða þeir sem búa á heimilum með fólki í áhættuhópi, eigi kost á að stunda fjarnám. Þetta segir Jóhanna Steina Matthíasdóttir forseti Sambands íslenska framhaldsskólanema.

Hún var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun en sambandið sendi frá sér yfirlýsingu fyrir helgi þar sem lýst var yfir vonbrigðum með skort á aðgerðaáætlun stjórnvalda um kennslu í framhaldsskólum.

Jóhanna sagði mikilvægt að gæta að andlegri heilsu framhaldsskólanemenda. „Eftirspurn eftir sálfræðingum hefur aukist mikið. Það er allt að þriggja mánaða bið á heilsugæslunni eftir sálfræðiþjónustu sem er heil skólaönn nánast. Það er ekki nógu gott,“ sagði hún.

Jóhanna sagði að skólunum hefði verið settur tiltekinn rammi sem þeir eigi að fylgja, en útfærslur séu mjög mismunandi á milli skóla.  Fyllsta ástæða væri til að hafa áhyggjur af viðkvæmum hópum og brýnt væri að skólarnir útveguðu nemendum grímur. „Við höfum talað fyrir því að það verði aukin áhersla á að veita nýnemum aðhald og sömleiðis nemendum sem eru í jaðarhópum og nemendum af erlendum uppruna. Þetta fólk þarf oft meiri stuðning til þess að fá hvatningu til að stunda námið,“ sagði Jóhanna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir