Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fjárlagagatinu ekki lokað á næstu árum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í Kastljósi.
 Mynd: RÚV
Ríkið hefur svigrúm á að taka á sig högg með hallarekstri, segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Hvorki standi til að fara í skattahækkanir né harðan niðurskurð.

Bjarni var gestur í Kastljósinu í kvöld og sagði hann hlutverk ríkisins að byggja á þeirri góðu stöðu sem það er í. Farið verði í fjárfestingarátak og peningar notaðir til að fjárfesta í innviðum. „Þetta trúi ég að sé besta leiðin út úr svona vanda,“ sagði Bjarni.

Spurður um hvenær standi til að byrja að skera niður, sagði hann stjórnvöld ekki sjá fram á að loka fjárlagagatinu á næstu árum. „Við erum að horfa á að skuldahlutföll verði viðunandi þegar upp er staðið — að skuldir verði ekki of íþyngjandi.“

Í myndinni að framlengja tekjutengingu atvinnuleysisbóta

Að mati ráðherra kemur til greina að framlengja tekjutengingu atvinnuleysisbóta, en í dag er gert ráð fyrir að þeir sem missa vinuna geti fengið allt að 70% af launum upp að vissu marki fyrstu þrjá mánuðina. 

Bjarni sagði til greina koma að framlengja tekjutenginguna, sem og að framlengja hlutabótaleiðina sem rennur á að falla niður um næstu mánaðamót. Hann kvaðst hins vegar ekki hlynntur því að hækka atvinnuleysisbætur.

Lægstu launin ekki nógu hvetjandi

„Mér líst síður á að fara í miklar breytingar á atvinnuleysisbótum,“ sagði Bjarni og kvaðst hafa heyrt í fjölda atvinnurekenda. „Þeir hafa komið þeim skilaboðum á framfæri að það sé þrátt fyrir allt erfitt að fá fólk á bótum til að koma til starfa,“ sagði hann. Lægstu laun séu ekki nógu hvetjandi fyrir fólk til að fara af bótum.

Ráðherra svaraði því neitandi að hann væri með þessu að kalla fólk letingja. „Það þarf að vera hvati til að stíga skref inn á vinnumarkaðinn,“ sagði hann og kvað þetta einfaldlega vera mannlegt eðli.