Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Evrópusambandið viðurkennir ekki niðurstöður kosninga

epa08612765 Belarusian President-elect Alexander Lukashenko (C) chairs the Security Council meeting in Minsk, Belarus, 19 August 2020.  Long-time president Lukashenko, in a defiant speech on 16 August, rejected calls to step down amid mounting pressure after unrest erupted in the country over alleged poll-rigging and police violence at protests following election results claiming that he had won a landslide victory in the 09 August elections. Alexander Lukashenko has ordered the Belarusian State Security Committee (KGB) to identify organizers of protests.  EPA-EFE/ANDREI STASEVICH / BELTA  / POOL
 Mynd: EPA-EFE - BELTA POOL
Leiðtogar Evrópusambandsins hafa haldið neyðarfund vegna ástandsins í Hvíta Rússlandi. Niðurstaða fundarins er sú að ríki sambandsins viðurkenna ekki niðurstöðu forsetakosninganna 9. ágúst síðastliðinn.

Staðfest er að þrír hafa látist í mótmælunum í Hvíta-Rússlandi. Í dag andaðist 43 ára gamall maður á sjúkrahúsi í borginni Brest, nærri pólsku landamærunum. Gennady Shutov, 43 ára að aldri, lést á sjúkrahúsi í Brest í dag. Yfirlýsing þess efnis barst í dag frá heilbrigðisráðuneyti Hvíta-Rússlands.

Skotinn úr launsátri

Fjölskylda mannsins lýsti áður yfir að lögregla hefði skotið hann meðan á mótmælum stóð þann 11. ágúst síðastliðinn. Það var á þriðja degi mótmælanna en fjölskyldan fullyrðir að Shutov hafi ekki verið þátttakandi í þeim. Lögregluyfirvöld viðurkenna að hafa skotið á mótmælendur í Brest þann dag og að einn hafi særst.

Brugðist hafi verið við ógnandi tilburðum mótmælenda með skothríðinni. Fjölskylda Shutovs fullyrðir að hann hafi fallið fyrir kúlu leyniskyttu á þaki nærliggjandi húss. Jafnframt segir hún að yfirlýsingar yfirvalda um að lögregla noti eingöngu gúmmíkúlur standist ekki.

Staðfest að þrír eru látnir

Þar með er staðfest að þrír hafa látist í mótmælunum í Hvíta-Rússlandi. Alexander Vikhor, 25 ára, var í haldi lögreglu í borginni Gomel þegar hann lét lífið. Fjölskylda Vikhors taldi hann vera hjá kærustunni sinni.

Alexander Taraikovsky féll meðan á mótmælum í höfuðborginni Minsk stóð. Lögregluyfirvöld fullyrtu í upphafi að bani Taraikovskys hefði verið af völdum sprengju sem hann sjálfur hélt á. Upptaka af atburðinum sýnir svo ekki verður um villst að þannig var ekki í pottinn búið.

Lukashenko vill að landamærin verði varin

Alexander Lukashenko forseti fundaði í dag með öryggisráði Hvíta-Rússlands þar sem hann fyrirskipaði að komið yrði í veg fyrir frekari óróa í landinu. Hann fullyrti að almenningur væri orðinn þreyttur á mótmælaaðgerðum og krefðist að ró og friði yrði komið á.

Jafnframt lagði forsetinn ríka áherslu á að landamærin væru varin, til að koma í veg fyrir straum vopna, skotfæra og peninga inn í landið til að fjármagna óeirðirnar. Hann sagði jafnframt brýnt að fylgjast gaumgæfilega með flutningi NATÓ-herdeilda til Póllands og Litháen.

Niðurstöður forsetakosninganna ekki viðurkenndar

Svetlana Tikhanovskaya, helsti keppinautur Lukashenkos í forsetakosningunum, sem dvelur í sjálfskipaðri útlegð í Litháen, hvatti Vesturveldin til að viðurkenna ekki niðurstöður kosninganna. Jafnframt varaði hún við því að hvít-rússnesk yfirvöld væru að koma hersveitum fyrir við landamærin til vesturs.

Niðurstaða neyðarfundar leiðtoga Evrópusambandsins varðandi Hvíta-Rússland er að viðurkenna ekki úrslit forsetakosninganna 9. ágúst síðastliðinn og að grípa skuli til refsiaðgerða gegn þeim sem bera ábyrgð á kúgun, ofbeldi og kosningasvindli í landinu.