Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ekki bolmagn til að bæta tjón að fullu

default
Kalskemmdir á túnum í Hörgársveit Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Kostnaður við ræktun túna til að laga kalskemmdir gæti orðið allt að 750 milljónir króna. Framkvæmdastjóri Bjargráðasjóðs segir langt í að bændur fái það bætt að fullu. Um 200 milljónir eru í sjóðnum.

Bjargráðasjóður bætir bændum tjón af völdum náttúruhamfara, meðal annars skemmdir á túnum og girðingum. Fljótlega þegar snjóa tók að leysa komu í ljós miklar kalskemmdir á túnum eftir erfiðan vetur.

Sjá einnig: Miklar kalskemmdir í túnum fyrir norðan

Bjargráðasjóði hafa borist tilkynningar um kaltjón frá 85 manns. Rúmlega 3600 hektarar voru tilkynntir og af þeim hafa 2000 hektarar verið metnir skemmdir. „Það er náttúrulega mjög verulegt tjón fyrir þá bændur sem um ræðir. Þetta er að mestu leyti á Austurlandi og svo í Suður- og Norður-Þingeyjarsýslum,“ segir Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bjargráðasjóðs. Skemmdir séu þó víðar, til dæmis í Skagafirði. 

Sjóðurinn hefur ekki bolmagn til að bæta tjón að fullu

Hann segir ræktunarkostnað fyrir 2000 hektara geta verið allt að 750 milljónir króna. Það sé langt því frá að bændur fái það bætt að fullu. „En menn munu fá einhvern hluta en til þess að menn fengju fullar bætur þyrfti sjóðurinn að hafa yfir miklu meira fjármagni að ráða heldur en hann hefur,“ segir hann. 

Um 200 milljónir eru í sjóðnum sem fær úthlutað átta milljónum á fjárlögum á ári. Sigurður segir ekki gott að meta hversu mikið bændur geti fengið bætt. Margt spili inn í eins og fóðurvöntun og bústofnsstærðir. Mögulega geti bændur fengið um 20-30% bætt.

Búið að óska eftir viðbótarfjármagni

Tjón vegna skemmda á girðingum á eftir að taka saman en þær eru taldar þær mestu í langan tíma. Síðast þegar viðlíka tjón varð á girðingum greiddi sjóðurinn um 50 milljónir í viðgerðir.

Sjá einnig: „Það alversta sem ég hef séð“

Stjórnvöld hafa sett aukið fjármagn í sjóðinn þegar sambærileg tilvik hafa gerst. Sjóðurinn fór fram á viðbótarfjármagn frá atvinnuvegaráðuneytinu í júní en enn hafa ekki borist svör við þeirri beiðni.