Guðjón hafði ekki leitt hugann að körfubolta fyrr en sumarið 2011 þegar hann sá kvikmyndina Glory Road. Myndin fjallar um háskólalið í Texas Western háskólanum í El Paso árið 1966 og gerist þegar mikil ólga er í samfélaginu hvað varðar kynþáttahatur og jafnrétti. Guðjón varð heillaður af íþróttinni eftir að hafa séð myndina, fór að æfa körfubolta með Fjölni og hefur gert síðan þá.
Stefnan var svo alltaf að fara til Bandaríkjanna og spila með háskólaliði eins og í myndinni. Þegar kom svo hins vegar að því að fara að hafa samskipti við skóla úti og taka ákvörðun segist Guðjón hafa farið að opna augun og víkka sjóndeildarhringinn.
„Það myndaðist þarna ákveðin togstreita af því ég var búinn að stefna að því sama í mörg ár. Svo varð það eiginlega yfirþyrmandi að vera kominn á fremsta hlunn með að ná þessu markmiði og ég fór að efast um að þetta væri eitthvað sem ég virkilega vildi.“
Hann ákvað í staðinn að taka sér pásu frá námi en ætlar að byrja í sálfræði í Háskóla Íslands í haust og segir það lán í óláni að hann hafi ekki farið út en hann væri ekki til í að hafa verið í miðju námi erlendis þegar Covid-19 brast á. „Eftir á að hyggja var þessi efi af því góða, ef hann hefði ekki komið upp væri ég ekki búinn að gefa út bók og stofna fyrirtæki,“ bætir Guðjón við.
Í bókinni fer Guðjón yfir þau ráð sem hann hefur nýtt sér til að ná árangri í gegnum tíðina, bæði í skóla og eins í körfuboltanum og í atvinnulífinu. Hann segir að þrátt fyrir að markhópur bókarinnar sé 12-25 ára geti allir nýtt sér bókina, sama hversu gamlir þeir séu. „Þó fólk vilji kannski ekki endilega fá ráð frá 20 ára strák,“ bætir hann við.