Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Britney Spears vill losna undan stjórn föður síns

Mynd: EPA / EPA

Britney Spears vill losna undan stjórn föður síns

19.08.2020 - 11:14

Höfundar

Bandaríska tónlistarkonan Britney Spears hefur farið þess á leit við dómsstóla að faðir hennar, Jamie Spears, verði ekki aftur lögráðamaður hennar.

Jamie Spears hefur verið lögráðamaður Britney Spears í 12 ár. Hún var nauðungarvistuð á geðdeild árið 2008 og við það svipt sjálfræði og fjárræði.

Faðir hennar steig um skeið til hliðar sem lögráðamaður í apríl 2009 vegna heilsubrests. Umboðsmaður hennar, Jodi Montgomery, hefur síðan gegnt hlutverki lögráðamanns tímabundið og vill Britney Spears að hún verði það varanlega.

Sjá einnig: Verkfall og sjálfræði Britney Spears

Samkvæmt dómsskjölum sækist hún þó ekki eftir því að bundinn verði endi á fyrirkomulagið. Hún segir það hafa forðað henni frá því að óprúttið fólk notfærði sér ástand hennar. Lögfræðingur Spears telur að faðir hennar muni andmæla kröftuglega beiðninni um að hann stígi endanlega til hliðar.

epa04906141 Britney Spears arrives on the red carpet for the 32nd MTV Video Music Awards at the Microsoft Theater in Los Angeles, California, USA, 30 August 2015.  EPA/PAUL BUCK
 Mynd: EPA
Britney Spears hefur ekki komið fram á tónleikum síðan 2018. Síðan hún var svipt sjálfræði hefur hún gefið út þrjár plötur.

Britney Spears gekk í gegnum andlega erfiðleika í kastljósi fjölmiðla milli áranna 2006 og 2008. Hún missti forræði yfir börnunum sínum tveimur eftir skilnað við Kevin Federline og voru reglulega birtar fréttir af óutreiknanlegri hegðun hennar. Hún var að lokum nauðungarvistuð á geðdeild eftir að hún neitaði að láta syni sína af hendi.

Innan aðdáendahóps hennar hefur myndast hreyfing – undir merkinu #freebritney – sem telur að hún hafi verið fangi föður síns síðan þá.

Greint er frá málinu á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Verkfall og sjálfræði Britney Spears

Britney Spears sló ekki heimsmet Usain Bolt

Popptónlist

Mega fullorðnir líka halda náttfatapartí?

Popptónlist

Hermdi Britney Spears eftir Gretu Salóme?