Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bjartsýnni á að samningar náist

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segist bjartsýnni en áður á að samningar náist í kjaradeilu lögreglumanna og ríkisins.

Samninganefndirnar funduðu hjá ríkissáttasemjara í dag, en hlé hafði verið á samningaviðræðum frá því í lok júní vegna sumarleyfa. Lögreglumenn hafa verið samningslausir frá því í maí í fyrra og hefur lítið gengið í viðræðunum á þeim tíma.

„Við höfum oft verið lengi samningslausir og höfum kennt því um að vera án verkfallsréttarog þar af leiðandi ekki með nein vopn til að knýja á um samning,“ segir Snorri. Kjaradeilan nú slagi þó sennilega upp í að vera lengsta tímabil sem lögreglumenn hafi verið samningslausir.

BSRB hefur undanfarið hvatt til þess að gengið verði frá samningum við lögreglumenn, en Landssambandið er eina aðildarfélag BSRB sem ekki hefur enn náð samningi við ríkið um nýjan kjarasamning.

Spurður á hverju strandi segir Snorri samninganefndirnar takast á um launaleiðréttingu, efndir gamalla loforða og atriði sem lúta að stofnannasamningi. 

Fundurinn í dag gekk vonum framar og telur Snorri ákveðnar dyr hafa opnast. „Þannig að við erum bjartsýnni en við höfum áður verið í þessum viðræðum,“ bætir hann við. 

Næsti fundur í kjaradeilunni verður haldinn eftir hálfan mánuð, þann 4. september. Snorri segir ástæðu þess að svo langur tími líði á milli funda vera þá að ákveðnar leiðir hafi opnast á fundinum í dag sem samninganefnd ríkisins þurfi nú að leggjast yfir og skoða.

Anna Sigríður Einarsdóttir