Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ánægður með traust frá dómsmálaráðherra

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Ólafur Helgi Kjartansson, sem lætur af starfi lögreglustjóra á Suðurnesjum um næstu mánaðamót, segist ánægður með það traust sem dómsmálaráðherra sýnir honum. Ólafur verður sérfræðingur í málefnum landamæra í dómsmálaráðuneytinu.

Dómsmálaráðherra hafði lagt til við Ólaf að hann myndi láta af störfum sem lögreglustjóri á Suðurnesjum, en mikil ólga hefur verið innan embættisins.

Kvartað hafði verið undan framgöngu hans í starfi ásamt einelti af hálfu annarra yfirmanna hjá embættinu og var málið komið inn á borð dómsmálaráðuneytisins og ríkisendurskoðunar. Grímur Hergeirsson, staðgengill lögreglustjórans á Suðurlandi, hefur verið settur tímabundið í embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum til 1. nóvember. Ólafur segir að um sé að ræða nýtt starf. 

„Þetta er ný nálgun, ég sinni því sem ég hef gert áður, að vera í stjórn Frontex og sinna landamæramálum sem er mjög mikilvægur hluti af því að íslenska ríkið er þátttakandi í Schengen,“ segir Ólafur.

Spurður hvort hann sé sáttur við málalyktir segist hann meta stöðuna þannig að með þessu hafi ráðherra sýnt sér traust.

Hefðirðu viljað halda áfram sem lögreglustjóri á Suðurnesjum? „Það er ekki til umræðu,“ svarar Ólafur.

Hann segist ekki fá starfslokasamning við þessa breytingu. „Nei. Ég er í vinnu. Það er enginn starfslokasamningur. Ekkert slíkt,“ segir Ólafur Helgi.

Fréttastofa hefur fengið staðfest frá ráðuneytinu að ekki sé gerður nýr ráðningarsamningur við Ólaf og að hann haldi því fyrri launakjörum í nýju starfi.